152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[15:54]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég hef ekki hugsað þetta djúpt, þann hátt sem þingmaðurinn lýsir hér á mögulegri færslu á skrifstofum á milli ráðuneyta. Fyrstu viðbrögð mín eru að ég teldi þetta skynsamlegt hafandi starfað innan ráðuneytis um hríð sjálfur. Þetta eru auðvitað þessarar heildstæðu einingar sem sjá um ákveðna málaflokka og þarna byggist stofnanaminni ráðuneytisins upp. Reglulega kemur upp umræða um ráðuneytisstjóra sem hafa eftir atvikum verið fluttir á milli ráðuneyta, eða eftir atvikum ekki. Við þekkjum öll sögur og brandara, ef svo má segja, af því að ráðuneytisstjórar verði mjög heimakærir í sínum ráðuneytum. Maður veltir því bara upp sem dæmi: Væri ástæða til þess að hafa meiri hringekju hvað þá varðar? Þá liggur stofnanaminnið, eins og hv. þingmaður lýsir, á skrifstofunum á hverjum stað. Í byrjun hvers kjörtímabils væri t.d. hægt að láta það ráðast með hlutkesti hvaða ráðuneyti hver ráðuneytisstjóri stýrði það kjörtímabilið. Þá væri litið á það að skrifstofa ráðuneytisstjóra yrði svona ríki í ríkinu sem hefði tilhneigingu til að bíða ráðherrann af sér ef hann væri ekki sammála meginstefnu ráðuneytisstjórans í einhverjum málum. Ég held að það væri að mörgu leyti skynsamleg nálgun að horfa á skrifstofueiningarnar en ekki afmörkuð verkefni innan úr tilteknum skrifstofum.