152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[15:56]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Þetta hefur á margan hátt verið gagnleg umræða þrátt fyrir að þingmenn meiri hlutans virðist forðast að taka þátt í umræðunni og það segir í sjálfu sér sitt. Það er væntanlega vegna þess að hv. þingmenn meiri hlutans hafa ekki hugmynd um hvað er að gerast, hafa ekki hugmynd um hvert ríkisstjórnin ætlar með þessum breytingum. Ég er reyndar ekki viss um það, frú forseti, að ríkisstjórnin viti það heldur sjálf. Það kemur sífellt betur í ljós hversu furðuleg þessi stjórnarmyndun var á margan hátt. Þetta hefði átt að vera einfalt. Ríkisstjórn hélt meiri hluta og hafði lýst því yfir að hún vildi starfa saman áfram. Við tók vika eftir viku, jafnvel mánuður eftir mánuð, af stjórnarmyndunarviðræðum sem er mjög erfitt að henda reiður á um hvað snerust. Maður getur varla komist að annarri niðurstöðu, eftir að hafa séð stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar, þingmálaskrá hennar og fjárlagafrumvarp, og reyndar er furðulegt misræmi þar á milli, en að það hafi fyrst og fremst snúist um hvernig ætti að skipta ráðherrastólum og verkefnum á milli ráðherra. Enda var þannig til þessa stjórnarsamstarfs stofnað í upphafi. Þetta var ríkisstjórn um stóla og að eftirláta kerfinu að stjórna. En nú, við endurnýjun stjórnarsamstarfsins, eftir fjögur ár þar sem ýmis álitamál milli þessara flokka, þessara ólíku flokka — sem þeir sem voru áður, þeir eru það ekki lengur, þetta er orðið meira og minna eins og einn flokkur — komu upp á þessum fjórum árum, þá þurfti einhvern veginn að grafa þau eða leysa þau og þá er því blandað inn í verkaskiptingu.

Maður veltir fyrir sér hvernig þessar löngu viðræður fóru fram. Voru formenn flokkanna búnir að skrifa verkefni á miða og býttuðu svo á miðum til þess að komast að því hvar á endanum þetta ætti að lenda? Kannski ekki. Kannski voru menn bara að velta þessu fyrir sér munnlega í huganum. Fyrir vikið þá veit ríkisstjórnin ekki sjálf núna hvernig verkaskiptingunni verður raunverulega háttað og hún hefur ekki hugmynd um hver kostnaðurinn af þessu verður. En hann verður umtalsverður. Hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt að hann muni nema a.m.k. hundruðum milljóna króna, og hann verði líka verulegur til framtíðar, því að við hljótum að gera okkur grein fyrir því að kerfisstjórn eins og þessi, þegar hún ræðst í svona uppstokkun, mun ekki leiða til sparnaðar. Kerfið, báknið, mun bara stækka. Málin verða leyst, álitamál, með verkaskiptingu, með því að fjölga fólki, auka útgjöld. Og báknið mun vaxa og vaxa, enda sannast það með þessari ríkisstjórn og gerði það á síðasta kjörtímabili að eftir höfðinu dansa limirnir. Forsætisráðuneytið hefur aldrei vaxið neitt í líkingu við það sem það gerði á síðasta kjörtímabili, gríðarleg útgjaldaaukning til forsætisráðuneytisins, gríðarleg fjölgun starfsmanna.

Þetta gefur auðvitað tóninn hvað varðar önnur ráðuneyti og birtist okkur ljóslega til að mynda í áformum um að byggja steinsteyptan kassa fyrir aftan hið merka hús, Stjórnarráðið, kassa sem minnir óneitanlega á stjórnarráðsbygginguna sem stóð til að reisa yfir Bernhöftstorfuna í upphafi áttunda áratugarins þegar Halldór Laxness skrifaði hina frægu grein „Brauð Reykjavíkur“ til varnar gömlu húsunum og ásýndinni þar. Nú ætlar þessi ríkisstjórn að hverfa aftur í tímann um hálfa öld og klára þessi áform um steinsteyptan kassa yfir Stjórnarráðið en koma honum fyrir á litlum reit fyrir aftan Stjórnarráðsbygginguna.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta hér er að þetta er svo lýsandi fyrir það hvernig þessi stjórn starfar. Hún er kerfisstjórn. Það skortir algerlega einhverja nýja sýn, jafnvel eftir mánaðaumræðu milli formanna flokkanna um hvernig ætti að halda áfram. Hvað er nýtt í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar? Hvað sýnir að þessi ríkisstjórn hafi þurft að halda áfram til að bjóða upp á einhverjar breytingar, eitthvað öðruvísi, eitthvað nýtt? Ekki neitt. Þetta er ríkisstjórn sem snýst bara um að halda áfram til að halda í stólana. Þannig að aðalvandamálið, eins og birtist í þeirri þingsályktunartillögu sem við ræðum hér, var með hvaða hætti ætti að skipta verkefnunum á milli stólanna.

Þegar tíminn hafði liðið það hratt að formenn flokkanna áttuðu sig á því að ekki yrði lengur beðið með að leggja fram fjárlagafrumvarp og kalla saman þing þá er þessu allt í einu skipt með hætti sem menn, að því er virðist, vita enn ekki sjálfir hvernig muni líta út, hvað þá að stjórnkerfið sé með á nótunum um það. En það þurfti bara að klára þessar viðræður og því fengum við að sjá að á gögnum ríkisstjórnarinnar, þingmálaskrá, tilkynningum um stjórnarmyndun, að menn eru ekki einu sinni vissir hvað ráðuneytin eiga að heita. Erum við t.d. með skólamálaráðherra eða erum við með menntamálaráðherra? Og annað eftir því, hvað þá að menn átti sig á verkaskiptingunni.

Auðvitað getur verið gagnlegt að færa til verkefni til að ná meiri samþættingu, meira hagræði. Það geta alveg verið tilefni til þess. Til að mynda finnst mér ekkert óeðlilegt að umhverfis- og orkumál séu í sama ráðuneytinu, á Íslandi. Það kemur mér á óvart að Vinstrihreyfingin – grænt framboð hafi fært orkumálin inn í umhverfisráðuneytið. Eitthvað hefði nú verið sagt ef ríkisstjórn án aðildar Vinstri grænna hefðu gert slíkt. Ég held að það hefðu orðið læti hérna úti á Austurvelli. En gott og vel, VG var til í að láta sig hafa eitt og annað til að vera áfram í forsæti í ríkisstjórn, þar með talið þetta. Og í sjálfu sér ekkert út á það að setja en menn þurfa þá að vita hvernig þetta á að virka, hvernig verkaskiptingin fer fram.

Þetta er hins vegar enn eitt dæmið um það að þessi breyting á Stjórnarráðinu snerist miklu leyti um yfirbragð, ásýnd. Mér er tíðrætt um þetta, frú forseti, ég veit það, en það er ekki að ástæðulausu. Stjórnmál þessarar ríkisstjórnar snúast um yfirbragð, umbúðir, ekki innihald, snúast um yfirlýst markmið, stimpla, ekki raunveruleg áhrif. Og einhverjir flokkar höfðu í kosningabaráttunni lýst því að það ætti að stofna ný ráðuneyti um loftslag t.d., loftslagsráðuneyti, og það ætti að stofna innviðaráðuneyti. Enn og aftur, þetta er spurning um stimplana og umbúðirnar. Menn fóru í kosningabaráttu og sögðu: Við ætlum að pakka þessum málum inn í þessar nýju umbúðir. Það þurfti því greinilega að klára það í stjórnarmyndunarviðræðum svoleiðis að umhverfis- og orkumálaráðuneytið fékk viðbótarstimpilinn eða viðhengið loftslagsráðuneyti, án þess að við áttum okkur á því hvaða áhrif það muni raunverulega hafa að kalla þetta loftslagsráðuneyti. Sama er með innviðaráðuneyti þar sem grundvallaratriði í innviðum samtímans, fjarskipti, eru þó tekin úr ráðuneytinu.

Það er ekki heil brú í því, fyrst við tölum um innviði, frú forseti, hvernig þetta var skipulagt. En það er vegna þess að þetta snerist ekki um að bæta kerfið. Þetta snerist ekki um að bæta fyrirkomulag Stjórnarráðsins. Þetta snerist um stólaleik ríkisstjórnarflokkanna og það að menn kæmust frá þessu með þau verkefni sem þá langaði að sinna og með þá stimpla sem þeir töldu sig þurfa að hafa, enda birtist það í heitum ráðuneyta sem, eins og ég nefndi áðan, eru reyndar nokkuð óljós enn þá.

Það eina sem er víst, frú forseti, er að þetta verður dýrt. Þetta verður flókið, þetta mun tefja stjórnsýsluna og gera hana óskilvirkari í stað þess að gera hana skilvirkari, eins og svona breytingar eiga yfirleitt að gera, og ríkisstjórnin hefur sjálf ekki hugmynd um í hvað stefnir. Það verður því áhugavert að fylgjast með framvindunni, með því hvort þessir stimplar, þessar umbúðir sem ríkisstjórnin hefur pakkað Stjórnarráðinu inn í, muni hafa raunveruleg áhrif. Hver verða raunverulegu áhrifin umfram yfirlýst markmið, frú forseti?