152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[16:11]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að sjá hæstv. forsætisráðherra bregðast svona vel við beiðni um að svara hv. þm. Jóhanni Páli Jóhannssyni þótt ekki hafi það gerst þegar um það var beðið upphaflega. Mér fannst nefnilega eftirtektarvert og til eftirbreytni að ráðherrann sæti hér langt fram á kvöld í gær og fylgdist ekki bara með umræðunni heldur tæki þátt í henni með því að veita þremur þingmönnum stjórnarandstöðunnar andsvör. Og þó að andsvör séu ekki nema ein eða tvær mínútur þá gefa þau tækifæri til mun skýrari skoðanaskipta en það sem hæstv. ráðherra sagðist ætla að gera, að reifa öll sjónarmið í ræðu við lok umræðunnar. Þar á að taka allt saman í einn fimm mínútna pakka. Ég ætla bara að leyfa mér að slá því föstu að þar hefði ekki verið minnst á Greiningar- og ráðgjafarstöðina sem auðvitað þurfti að svara beint. (Forseti hringir.) Þetta var bein spurning sem var beint til ráðherra og auðvitað hefði farið best á því að hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) hefði brugðist við því með að svara þingmanninum í andsvari.