152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[16:12]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er gott að hafa fengið þessi svör. Að sumu leyti er maður feginn að þetta er svona. Það þýðir þá að málefnið er hjá hæstv. ráðherra Ásmundi Einari Daðasyni sem rak kosningabaráttu sem snerist að miklu leyti um málefni barna, XB fyrir börn o.s.frv. Ég bind vonir við að hæstv. ráðherra Ásmundur Einar Daðason muni berja í borðið og falla frá þessum niðurskurði sem hefur greinilega verið á teikniborðinu þegar ráðuneytið var undir Vinstri grænum, þessar vikur frá því að forsetaúrskurðurinn kom fram. Ég ætla rétt að vona að núna verði fallið frá þeirri ömurlegu þróun sem er boðuð í fjárlagafrumvarpi hæstv. fjármálaráðherra þar sem við sjáum lækkun þegar kemur að málefnum fatlaðra barna, þar sem við sjáum t.d. að boðuð eru lægri fjárframlög til þessarar stofnunar sem ég hef fjallað um hér, Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, á hverju einasta ári þessa kjörtímabils. Ég gleðst yfir því.