152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[16:51]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur kærlega fyrir að koma hingað upp og taka þátt í samtalinu með okkur. Í fyrri umferð langar mig að spyrja, af því ég hjó eftir því að hv. þingmaður fer yfir stikkorð um helstu breytingar og er sátt við þær og að hún nefndi að það væri líka gagnrýnisvert í endurnýjuðu stjórnarsamstarfi að breyta ekki neinu, það mætti jafnvel gagnrýna það, hvort hún geti samt verið sammála því að himinn og haf sé á milli þess að gera ekki neitt og fara síðan út í þessar miklu breytingar. Ég viðurkenni að það hefur farið fram hjá mér þegar kostnaðurinn fór, í máli hæstv. ráðherra ríkisstjórnarinnar, úr 200 milljónum í 450. Þá má gera ráð fyrir því að þar muni halla hátt í milljarð, svona út frá íslenskum reiknikúnstum og íslenskum veruleika. En það er nú ekki á ábyrgð hv. þingmanns.

Ég er að velta því fyrir mér, einfaldlega af því að nú kemur þingmaðurinn inn á það að þó að stjórnarþingmenn hafi samþykkt málið út úr þingflokkum að þá hafi þau ekki haft mikið lengri tíma en við sem hér stöndum í stjórnarandstöðunni til að skoða þetta, hvort henni þyki þetta raunverulega nægilega vel ígrundað. Nú er komið á fimmta ár í samstarfi þessara þriggja flokka. Reynslan er til staðar, löngu fyrir kosningar voru yfirlýsingar komnar fram um vilja til áframhaldandi samstarfs og maður skyldi ætla að það hefði þá verið farið að veltast í meðförum forystufólks flokkanna hvernig ætti að gera þetta en það er engu að síður svo að kjörtímabilið virðist ekki hafa dugað til, ekki þeir tveir mánuðir þegar við vorum í skjóli skandalsins í Norðvesturkjördæmi og varla tíminn sem síðan leið. Hefði ekki verið hægt að vinna þetta betur, svo ég varpi bara þeirri þungu spurningu fyrir hv. þingmann sem ég þakka enn og aftur fyrir að koma hingað í samtalið?