152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[17:00]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Minni hlutanum til hróss verð ég að segja að með því að tala svona vel og lengi í þessu máli eru þau komin, held ég, fram úr okkur stjórnarþingmönnum í því að læra heitin á ráðuneytunum. Ég þakka fyrir andsvarið. Hv. þingmaður nefnir fjarskiptamálin. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki þau rök sem ég get farið með hér í ræðustól fyrir flutningi á þessum málaflokki þó að ég treysti nýjum ráðherra fyrir málaflokknum eins vel og mínum formanni, enda tel ég að hún geti þá leitað til góðs ráðgjafa ef eitthvað vantar upp á það. Þingsályktunartillagan kemur til hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem ég sit í þannig að þetta verður eitt af þeim málum sem ég mun spyrja svolítið út í. Ég hef ekki svörin eða fulla skoðun á því fyrr en ég hef kynnt mér það. Það er bara þannig og ég skal alveg viðurkenna það. En ég treysti hæstv. ráðherra til að sinna þessum málaflokki jafn vel og hún hefur gert í öðrum málum.