152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[17:04]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og býð hana velkomna fyrir hönd stjórnarliða í umræðuna. Það hefur komið í ljós að hv. þingmanni finnst það kannski frekar óheppilegt, ef ég hef skilið hv. þingmann rétt, að færa fjarskiptin yfir og ég er sammála því. Ég tel að innviðauppbyggingin hefði átt að vera öll áfram í svonefndu innviðaráðuneyti. Mig langar að spyrja hv. þingmann um sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, og ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni, við deilum þeirri skoðun að sóknarfæri fyrir íslenskan landbúnað séu gríðarleg, í matvælum og matvörum. Hvað nákvæmlega er það í tillögunni sem ýtir undir það? Verið er að taka rétt skref með landgræðsluna og skógræktina, að færa það úr umhverfisráðuneytinu yfir í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, en hvað nákvæmlega í þessu ýtir undir það að við getum farið af krafti í því að sækja fram með matvæli? Hvað er það til viðbótar sem styður við landbúnað í nákvæmlega þessu?

Í öðru lagi langar mig til að spyrja hvort hv. þingmaður sé sáttur við það að umboðsmaður barna færist frá forsætisráðuneyti yfir í ráðuneyti mennta og barna. Umboðsmaður barna er sjálfstæð stjórnsýslustofnun og ég tel mikilvægt að hún sé sjálfstæð og meira en armslengd frá þeim aðilum sem hún á einmitt að hafa eftirlit með. Að mínu mati er verið að gera stofnun umboðsmanns barna erfiðara fyrir með því að vera undir sama ráðuneyti og hún á að hafa eftirlit með. Ég vil gjarnan fá álit hv. þingmanns á þessu. Síðan vil ég einfaldlega spyrja hvort henni finnist heppileg öll þessi mörg hundruð milljóna króna fjárútlát sem þessar hrókeringar kosta þegar upp er staðið.