152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[17:22]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég skoraði á hæstv. forsætisráðherra áðan að koma í andsvar við ræðu mína og hæstv. forsætisráðherra tek ekki þeirri áskorun þannig að ég tók þeirri áskorun að koma í andsvar við hæstv. forsætisráðherra. Ég hef einungis einfalda spurningu til hæstv. forsætisráðherra, spurningu sem hægt er að svara með já eða nei. Þegar ég spurði hæstv. félagsmálaráðherra sömu spurningar sagði ég við hann: Ekki svara með „það þarf að“ eða benda á einhvern annan. Spurningin er: Ætlar hæstv. forsætisráðherra að beita sér fyrir því innan ríkisstjórnarinnar sem hæstv. forsætisráðherra stýrir að það verði skerðingarlaus eingreiðsla til öryrkja fyrir jól?