152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[17:24]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. fjárlaganefnd hefur málið til meðferðar. Það þýðir ekki að ég sé að benda á fjárlaganefnd heldur að benda á hina augljósu staðreynd. Eins og ég nefndi áðan hef ég beitt mér fyrir bættum kjörum öryrkja í öllum þeim tillögum sem hafa komið fram á undanförnum árum og síðast í fjárlagafrumvarpi með viðbótarhækkun til örorkulífeyrisþega. Ég vil segja um þessi mál, hvað varðar eingreiðslu til öryrkja, að við erum öll meðvituð um að þessi hópur stendur höllum fæti, sérstaklega þau tekjulægstu í þeim hópi. Stóra verkefnið í þeim málum er að ná fram kerfisbreytingum á þessu kerfi til að gera það réttlátara og gagnsærra og tryggja betur afkomu þeirra sem höllustum fæti standa. Það hefur ekki tekist á undanförnum árum þrátt fyrir ýmsar tilraunir, ýmsar nefndir, margar tillögur. Ég skora á, af því að hv. þingmaður er mikið fyrir áskoranir, Alþingi Íslendinga að tryggja að fram náist réttlátar breytingar á þessu kerfi á komandi misserum. (GRÓ: Enn ekkert svar.)