152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[17:28]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið sem snýst um þessa þingsályktunartillögu. Í fyrsta lagi vil ég segja varðandi umboðsmann barna: Hafi ég ekki verið nógu skýr áðan þá er til skoðunar að færa það embætti aftur til forsætisráðuneytis og hugsanlega í framhaldinu að endurskoða lögin varðandi mögulega staðsetningu embættisins hjá Alþingi. Það er þó enn óútrætt þannig að ég vil ekki ganga lengra en að segja að það hafi verið til skoðunar. En þetta liggur sem sagt fyrir.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður: Mun málið breytast í meðförum þingsins? Ég sé ekki fyrir mér að tillögugerðin sjálf, þ.e. tillagan sjálf sem snýst um stofnun þessara ráðuneyta eingöngu, breytist en að sjálfsögðu mun nefndin fjalla um hin undirliggjandi verkefni sem færast á milli ráðuneyta og væntanlega leggja fram nefndarálit sem skiptir máli fyrir okkur í ríkisstjórninni því að ég lít svo á að vinna nefndarinnar geti verið okkur hjálpleg til að rýna þessar breytingar. En sjálf verkaskiptingin birtist auðvitað í forsetaúrskurðinum sem kemur ekki til Alþingis. Bara til skýringar.

Hv. þingmaður spyr um rannsóknarnefnd Alþingis. Ég vitna nú í skýrsluna sem ég lagði fyrir þingið um hvernig hefði verið brugðist við ábendingunum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Hluti af þeim ábendingum var m.a. að breyta því hvernig við vinnum í Stjórnarráðinu. Við tókum til að mynda upp ráðherranefndir um einstök mál. Það er nýlunda sem verður til eftir rannsóknarnefnd Alþingis, er fært í lög um Stjórnarráðið og hefur auðvitað aukið samhæfinguna og breytt því hvernig ráðuneyti vinna saman. Ég er nokkuð viss um að hv. þingmaður þekkir þetta vel hafandi verið ráðherra á ólíkum tímum, þessar breytingar. Ég held því að vinnulagið eins og það breyttist eftir rannsóknarskýrsluna muni halda sér og það mun reyna mjög á það eftir þessa uppstokkun, tel ég. (Forseti hringir.) Ég tel hins vegar líka að það feli í sér mikil tækifæri. Ég kem að lögfestingu sáttmálans í næsta andsvari.