Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 12. fundur,  11. okt. 2022.

Störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Herra forseti. Ég hef áður mætt hér í ræðustól Alþingis og lýst yfir þungum áhyggjum af auknu ofbeldi á Íslandi. Í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn minni um tíðni ofbeldisbrota kemur fram að á níu árum hefur ofbeldisbrotum fjölgað um 64%. Þessi aukning er vægast sagt ógnvænleg. Þetta eru staðreyndir sem koma frá dómsmálaráðuneytinu. Ég velti því fyrir mér hvernig ráðherra og ráðuneyti hans hyggist bregðast við þessu aukna ofbeldi. Fyrstu viðbrögð benda til þess að viðbrögð dómsmálaráðherra snúist helst um vopnavæðingu lögreglunnar, að leyfa rafbyssur. Svar ríkisstjórnarinnar virðist vera að reyna að útrýma ofbeldi með ofbeldi. Fyrir mér hljómar það undarlega. Hegðun er nú einu sinni þannig að hún er lærð með herminámi, oft með fyrri hegðun. Ef við viljum að unga fólkið okkar hætti að beita ofbeldi þá er svarið ekki að veita auknar heimildir fyrir löggæslu að beita ofbeldi. Það þarf að hugsa dæmið upp á nýtt og ráðast í fyrirbyggjandi aðgerðir sem snúast um að vernda fólk fyrir ofbeldi. Vissulega þarf að tryggja að starfsfólk lögreglu sé öruggt, en ef vandamálið er aukið ofbeldi tel ég augljóst að verið sé að byrja á öfugum enda.

Í átakanlegum Kastljóssþætti gærkvöldsins var rætt um andlegt ofbeldi gagnvart hinsegin börnum. Það er aukning á ofbeldi á öllum vígstöðvum og ríkisstjórnin verður að átta sig á því að svarið við ofbeldi er ekki meira ofbeldi. Það þarf að taka þessa hræðilegu þróun alvarlega. Við erum að missa einstaklinga og stundum börn úr sjálfsvígum vegna ofbeldis sem þau verða fyrir. Þetta er ekki í lagi og ríkisstjórn þessa lands ber ábyrgð á því að bregðast við þessu ekki seinna en í dag.