Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 12. fundur,  11. okt. 2022.

Niðurstöður starfshóps um neyðarbirgðir, munnleg skýrsla forsætisráðherra .

[15:13]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Við ræðum niðurstöður starfshóps um neyðarbirgðir. Ég vil kannski byrja þessa umræðu á að taka undir með hæstv. forsætisráðherra að það er löngu tímabært að við ræðum þessi mál hér í þingsal og ég vil færa þakkir til þjóðaröryggisráðs að hafa ákveðið að kynna skýrsluna fyrir þinginu og taka umræðu um hana. Við höfum kannski allt of lítið verið að ræða þessi mál. Ég hef ítrekað á ýmsum sviðum þjóðaröryggismála verið að taka upp þessi mál en þetta er klárlega hluti af því sem við þurfum að taka upp með öflugum hætti og almennt vera vel að okkur í þessum málum.

Covid-19, innrás Rússa í Úkraínu, orkukrísa í heiminum og þá ekki síst þegar litið er til Evrópu, allt alvarleg mál, og óveðrið á norðanverðu landinu í desember 2019, sem oft hefur verið nefnt aðventustormurinn. Í framhaldi af þessu hefur öll umræða um þjóðaröryggismál tekið stakkaskiptum hér á Alþingi sem og annars staðar miðað við sem áður var eða a.m.k. um töluvert skeið. Fleira má telja til, svo sem netöryggismál, fæðu- og matvælaöryggi, umræðu um grunninnviði samfélagsins o.s.frv., þá er ég að tala um flutningskerfi raforku, flugvallarkerfið okkar, alþjóðaflugvellina, samgöngumál og annað.

Í þessari skýrslu sem við ræðum hér, sem hæstv. forsætisráðherra skipaði starfshóp til að gera, er farið yfir stöðu neyðarbirgða á Íslandi og nauðsynlegar birgðir til að tryggja öryggi þjóðarinnar á hættutímum eða við þær aðstæður sem geta skapað hættu. Hún er unnin með stefnu stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum að baki. Við sjáum þegar við lesum skýrsluna, sem er um 70 blaðsíður, að við getum enn styrkt innviði landsins og áfallaþol íslensks samfélags. Það er af nógu að taka. Þessi skýrsla er opinská og bendir á marga veikleika í samfélaginu en það er betra að ræða það hér heldur en að fela það inni í einhverjum skáp. Þetta er þörf umræða.

Frú forseti. Ég vil vitna í fréttatilkynningu Stjórnarráðsins þegar skýrslan var kynnt:

„Í skýrslu starfshópsins er lagt til grundvallar að eftirtaldar birgðir þurfi að vera tiltækar til þess að tryggja lífsafkomu þjóðarinnar á hættustundu svo að unnt sé að vernda líf og heilsu almennings, tryggja órofa virkni mikilvægra innviða samfélagsins og þjónustu sem er nauðsynleg svo að unnt sé að sinna brýnustu þörfum íbúa og samfélags við slíkar aðstæður.“

Eins og hæstv. forsætisráðherra fór yfir í sinni ágætu ræðu er eftirfarandi tekið sérstaklega fyrir: Matvæli og nauðsynleg aðföng vegna matvælaframleiðslu, jarðefnaeldsneyti, lyf, lækningatæki og hlífðarbúnaður, viðhaldshlutir og þjónusta vegna mikilvægra innviða samfélagsins, þar með talið rafmagns og fjarskipta, veitna, samgangna, neyðar- og viðbragðsþjónustu, mannvirkja og veitna, einnig hreinlætisvörur og sæfivörur. Það kemur fram í ábendingum starfshópsins um næstu skref að það megi kannski líta á það sem þríþætt verkefni sem tengist því sem fjallað er um í skýrslunni; að hvetja atvinnulífið til að tryggja heilindi sinnar aðfangakeðju svo hún þoli áföll, að semja við fyrirtæki á markaði að halda uppi veltulager af tilteknum vörum eða tækjum til ákveðins tíma á ákveðnum aðföngum og að gera tillögur um fyrirkomulag opinbers birgðahalds í þeim tilvikum þar sem aðrar leiðir eru ekki raunhæfar. Svo þarf náttúrlega að gera þær lagabreytingar sem þurfa að koma til svo að hægt sé að vinna verkið.

Það er auðvelt að skilja þegar skýrslan er lesin hversu alvarlegt það er og reyndar ótrúlegt hvernig staða olíubirgða er í landinu. Mig minnir að myndin í skýrslunni sýni um tíu ár aftur í tímann að aðgengilegar birgðir í lok hvers árs dugi fyrir um 20–50 daga eldsneytisnotkun miðað við meðaltalsnotkun þess árs. Þá er dæmi um að birgðir þotueldsneytis hafi verið undir tíu dögum, tíu daga birgðir um áraskeið. Það koma þarna mörg ár í röð. Það er súrrealískt í sjálfu sér að lesa þetta. Land sem á ótrúlega mikið undir því að þetta sé í lagi. Manni fannst alveg nóg um þegar maður las þennan þátt skýrslunnar. Reyndar viðurkenni ég að það kom upp í hugann hvort þetta væru bara opinberar birgðir á Íslandi eða hvort þetta væri með birgðum Atlantshafsbandalagsins og NATO, hvað væri nákvæmlega undir vegna þess að talan er svo, við skulum bara orða það þannig, skrýtin, ég ætla ekki að taka dýpra í árinni en það. Í skýrslunni kemur einnig fram að í íslenskri löggjöf er ekki tilgreindur aðili sem ber ábyrgð á því að til séu neyðarbirgðir eldsneytis eða hversu miklar þær skulu vera. Engin krafa er sett á stjórnvöld eða atvinnulíf til að halda uppi lágmarksbirgðum eldsneytis sem nýta mætti í aðstæðum sem takmarka eða útiloka afgreiðslu eldsneytis til Íslands. Það er engin löggjöf sem tekur á þessu. Hér erum við náttúrlega líka að ræða um markaðslögmálið og hæstv. forsætisráðherra kom inn á það varðandi birgðahald og kostnað við það. Þetta er ekki ágreiningsmál endilega, það þarf bara að taka á þessu og hvernig eigi að fara með þetta. Það er nú reyndar þannig með geymslu á eldsneyti að það þarf líka að passa upp á að það sé mikil hreyfing á því þannig að það ónýtist ekki ef það er geymt lengi. En þetta er klárlega eitt af stóru málum sem þarf að fara hratt og vel í.

Ég vil líka koma því að í orkustefnu Íslands, við unnum að orkustefnu Íslands um tveggja ára skeið og ætli það séu ekki komin tvö ár síðan hún kom fram og var kynnt hér í þinginu, í henni kemur einmitt fram að horft sé til alþjóðlegra viðmiða við setningu lágmarksbirgða, og þar er horft til Evrópusambandsins og Alþjóðaorkumálastofnunar þar sem gerðar eru kröfur til aðildarríkja um 90 daga neyðarbirgðir eldsneytis miðað við innflutning næstliðins árs. Því er ljóst að það þarf gera mun betur hjá okkur hér á Íslandi. Við þurfum líka að skoða hvernig við sjáum þetta fyrir okkur í tengslum við orkuskiptin og okkar grænu orku. Ég held að það sé mjög mikilvægt vegna þess að það var aldrei fjallað um það hvernig við myndum taka það fyrir í orkuskiptunum þegar við ætlum að reyna að rafvæða samgöngur landsins og tæki og tól, þ.e. varðandi neyðarráðstafanir sem snúa að neyðarbirgðum eldsneytis og hvernig við ætlum að takast á við það og hvort einhver hluti af okkar tækjum og tólum noti olíu, bara í þessu stóra samhengi. Þetta datt mér nú bara í hug í gærkvöldi þegar ég var að velta þessu fyrir mér. Þetta var t.d. ekki rætt í orkustefnunni og þetta vekur miklar spurningar um það, t.d. um batterístækni og annað, hvernig ætlum við að taka á þessu. En auðveldasta leiðin til að geyma orku er að geyma jarðefnaeldsneyti.

Síðan er komið í skýrslunni með ítarlegum hætti inn á viðhald og rekstur mikilvægra innviða samfélagsins og er mjög áhugaverð umfjöllun, ótrúlegt hvað það hefur verið rætt lítið í gegnum tíðina. Það er bent á að ekki er í lögum fjallað með beinum hætti um viðhaldshluti eða eftirlit með stöðu viðhaldshluta, en ljóst sé að framleiðendur, flutningsfyrirtæki og dreififyrirtæki verði að tryggja birgðastöðu sína til að sinna lögbundnum skyldum sínum, sem eru raktar í þessum kafla. Auðvitað er það erfitt í flóknu nútímasamfélagi að gæta allra þátta en þarna er víða komið við. Í skýrslunni er t.d. bent á Orkuveitu Reykjavíkur, þar er töluvert til af varahlutum og íhlutum og annað og hugsað til lengri tíma, til 200–270 daga á flestum sviðum. En það væri fróðlegt að vita hvernig þessu er háttað annars staðar, eins og hjá Landsneti og Landsvirkjun, í því sem snýr að orkukerfi landsins. Það er margt gott í skýrslunni og fróðlegt. Auðvitað er bent á að samkvæmt lögum eiga þessi fyrirtæki að gæta að þessum öryggisþáttum í sínum rekstri.

Það er líka fjallað um fjarskipti og þá komum við kannski inn á það sem við höfum verið að fjalla svolítið um í fjarskiptalögum. Við höfum oft rætt netöryggismálin og slík mál á undanförnum árum, þá er ég að tala um síðustu tvö, þrjú ár, að þessi kerfi öll virki og við höfum rætt hérna einmitt töluvert fjarskipti og öryggismál þjóðarinnar. Við kynntumst því nú bara síðast um helgina hversu stór og mikilvægur þáttur það er að halda einmitt fjarskiptasambandi þegar óveður geisa og annað. Fólk finnur strax til óöryggis þegar rafmagnið fer af og fjarskiptin fljótlega eftir það. Við höfum þó gert mikið eftir aðventustorminn í desember 2019, í framhaldi af vinnu átakshópsins og þeirrar vinnu sem hefur verið unnin í sambandi við fjarskiptin og raforkumálin. Það er búið að gera ótrúlega mikið eins og við sjáum núna innan við þremur árum seinna í veðrinu sem kom um helgina og fyrir hálfum mánuði. Það er gríðarleg breyting. Margt sem er búið að gera á síðustu tæpum þremur árum, það eru bara 34 mánuðir frá því í desember 2019, er að hjálpa okkur gríðarlega mikið í þessu ástandi eins og núna og það eru kannski helst einmitt Kröflulína 3, sem er stærst og veigamest, og Hólasandslína 3 sem breyttu þessum leik algjörlega, bæði um þessa helgi og fyrir hálfum mánuði líka. Við höfum því séð töluverðar breytingar. En þetta er náttúrlega mjög áhugaverð nálgun að komið sé inn á þetta vegna þess að ég hef ekki séð fjallað mikið um einmitt þessa þætti eins og fjarskiptin með þessum hætti áður.

Ég hleyp hérna á nokkrum punktum sem ég tók eftir en gæti fjallað lengi um þetta. En á bls. 39 er aðeins fjallað um flugvelli landsins og þar vil ég koma með athugasemdir. Þar er fyrst og fremst eða reyndar bara talað um Keflavíkurflugvöll. Ég geri athugasemdir við það og ég held að nefndin verði að skoða þetta í framhaldinu. Þetta er orðað svona:

„Ef Keflavíkurflugvöllur lokast hefur það fljótt alvarlegar afleiðingar fyrir farþegaflutninga til og frá landinu sem og út- og innflutning, t.d. ferskvöru og lyfja. Rof á flugsamgöngum getur verið vegna náttúruvár, t.d. eldgoss (aska eða hraunrennsli yfir aðkomuleiðir), jarðskjálfta (skemmdir á flugbrautum eða öðrum innviðum) eða veðurofsa, sem og manngerðar hættu, t.d. skemmdarverka, netárása eða hernaðar.“

Ég les þetta beint upp, hæstv. forseti. Síðan kemur það sem truflaði mig kannski einna mest í þessu. Það er minnst á flugvelli í grunnkerfi, allt í góðu með það, mikilvægi þess varðandi innanlandsflugið og þátt þess í sjúkra- og aðfangaflugi á neyðarstundu. Neyðartilfellum er sinnt af þyrlum sem eru ekki eins háðar innviðum og flugvélar. Rofni innanlandsflug er slíkt leyst með tímafrekari landsamgöngunum eða ferju. En það er þessi setning sem truflaði mig helst: „Ekki hefur verið unnið eitt heildaráhættumat fyrir flugvöllinn. Til þess vantar sérhæft mat m.t.t. náttúruvár, sérstakra áhrifa stærri jarðskjálfta …“ Það er ekki minnst á aðra alþjóðaflugvelli landsins og samhengi flugvallakerfisins. Ég vil benda í þessu samhengi sérstaklega á skýrslu Þorgeirs Pálssonar, fyrrverandi flugmálastjóra, frá 2017 þar sem er verið að ræða almannavarnir og hlutverk t.d. Reykjavíkurflugvallar og þessa kerfis og sérstaklega þörfina á því að það séu tveir flugvellir á suðvesturhorni landsins. Það er komið inn á þetta og komið mjög víða við í þeirri viðamiklu og ágætu skýrslu og ég vildi koma sérstaklega með ábendingu um hvernig tekið er á þessu í henni.

Það er alveg lygilegt hvað það fer að styttast í tímanum og ég er engan veginn kominn í gegnum þetta, það er bara þannig. Ég vildi bara rétt í lokin nefna aðfangakeðjurnar. Þetta er gríðarlega mikið rætt í NATO-þinginu. Þetta er orðið stóri hluturinn í vestrænni samvinnu. Við þurfum virkilega að fara að skoða þær á ýmsum sviðum.

Varðandi lyfin þá er mjög fróðlegt að lesa hvernig framleiðsla lyfja hefur flust úr landi, fyrst til Evrópu og síðan er hún komin til Kína og Indlands meira og minna. Þetta er í stuttu máli eitthvað sem verður að fara að skoða og ég held að Evrópa verði líka að fara að skoða þetta.

Kornrækt, uppbygging þar, framleiðsla á byggi, útiræktun og grænmetisframleiðsla, möguleikar í áburðarframleiðslu tengdir rafeldsneyti — það eru (Forseti hringir.) gríðarlegir möguleikar á mörgum sviðum og við í þessu góða landi eigum gríðarleg tækifæri einmitt á að koma til móts við þessar öryggisþarfir og neyðarbirgðir.