Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 12. fundur,  11. okt. 2022.

Niðurstöður starfshóps um neyðarbirgðir, munnleg skýrsla forsætisráðherra .

[15:57]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu um þessa skýrslu og þetta mikilvæga mál sem birgðahald er. Þó að það sé vissulega gott að þessi skýrsla sé komin fram þá verður að segjast að það kemur manni á óvart hversu seint var farið af stað að vinna skýrsluna. Hér geisaði heimsfaraldur í rúm tvö ár og í honum sáum við aðfangakeðjur rofna víða um heim. Þjóðaröryggisráð tók saman skýrslu á árinu 2021 sem snertir á flestu því sem hér hefur verið farið yfir. Þá komu margir vankantar í ljós en hér erum við, tæpum tveimur árum síðar, að ræða þessa sömu vankanta, sömu stöðu. Það lýsir kannski þessari ríkisstjórn vel, það er mikið rætt en minna gert. Það var ekki pælt í því að við þyrftum kannski að ná utan um það hvað væri til í landinu fyrr en eftir faraldurinn, t.d. eftir ítrekaðar fréttir af lyfjaskorti. Það er m.a. haft eftir fulltrúum frá heilbrigðisráðuneyti að skortur hafi verið á 41% lyfja á Íslandi á síðasta ári. Ég verð að viðurkenna að það var kannski barnalegt af mér að halda að einn af grunnþáttum þjóðaröryggis væri að tryggja að ákveðnar nauðsynjar vegna grunnþarfa væru alltaf tryggðar. Það var greinilega ekki svo. En vonandi horfir nú til betri vegar. Skýrslan er góð og varpar vissulega ljósi á stöðuna þegar horft er á mikilvægar undirstöður samfélagsins. En staðreyndin er sú að það var búið að greina þetta áður í öðrum skýrslum af öðrum aðilum en lítið hefur verið gert við þær skýrslur. Því hræðir það mann aðeins að við stöndum hér að ræða enn aðra skýrsluna um hvað þarf að gera. Við erum ekki að ræða hvað við ætlum að gera og hvenær við gerum það. Við erum alltaf að ræða hvaða vandamál eru til staðar en ekki lausnirnar. Þannig er þessi ríkisstjórn í hnotskurn. Ég ætla samt að leyfa mér að vera bjartsýnn og vona að þessi skýrsla verði til þess að við undirbúum okkur betur en við höfum áður gert.

Ef við skoðum helstu þætti skýrslunnar er margt sem maður staldrar við og sem ég vil fá að ræða hér. Það sem kemur í ljós er að það voru engin lágmarksviðmið í neinum flokki um hvað ætti að vera til, þ.e. hversu lengi birgðir í landinu skyldu endast. Við vitum hins vegar að auðvitað eiga heildsölur landsins til einhvern lager, t.d. af matvælum. En engin viðmið eru um það hversu miklar þessar birgðir eiga að vera. Í upphafi kórónuveirufaraldursins var rætt við nokkrar heildsölur og töluðu þær um að vanalega væru þær með þriggja mánaða birgðastöðu en væru núna að horfa til þess að eiga birgðir til fimm mánaða út af stöðunni. Heimili landsins eiga almennt ekki neinar birgðir eins og gefur að skilja, en árið 2020 gaf landlæknir út lista yfir æskilegt birgðahald heimilanna í heimsfaraldri. Meiri hluti þess sem þar var nefnt var hins vegar innflutt vara eins og niðursuðuvörur, ávaxtasafar með langt geymsluþol, kornvörur eins og pasta og hrísgrjón, morgunkorn og annað með langt geymsluþol. Það er því ljóst að við erum mjög upp á aðra komin. Í skýrslu starfshópsins er bent á niðurstöður og ábendingar úr skýrslu þjóðaröryggisráðs frá upphafi ársins 2021 og þar stendur m.a., með leyfi forseta:

„Gera þarf reglulegar úttektir á matvælabirgðum í því skyni að tryggja að nægar birgðir séu til í landinu af matvælum til a.m.k. sex mánaða og skilgreina lágmarksbirgðir af matvælum og aðföngum til matvælaframleiðslu. Þá er þörf á að gera viðbragðs- og neyðaráætlun vegna matvælaskorts, m.a. í samráði við helstu birgja.“

Ég velti því fyrir mér hvort næsta skýrsla vitni líka til þess sem áður hefur verið ritað, áður en eitthvað gerist. En það er ljóst af báðum skýrslum að þörfin á aukinni sjálfbærni í matvælaframleiðslu er stór þáttur í matvælaöryggi okkar. Stjórnvöld þurfa að sýna kjark til að hjálpa bændum að taka stór skref í eigin áburðarframleiðslu og þróun hennar í grænmetisrækt og í því skyni að framleiða prótein til manneldis úr jurtaríkinu. Það er framleiðsla sem með réttum pólitískum stuðningi hefur burði til þess að verða raunverulega sjálfbær á skömmum tíma.

Virðulegur forseti. Eins og kemur fram í skýrslunni er staða lyfja viðkvæmur punktur. Í lok júlí birtust fréttir af því að tilkynningar um lyfjaskort hefðu verið allmargar undanfarið. Vandinn er hins vegar ekki bara bundinn við Ísland en birgðastaðan virðist vera, samkvæmt skýrslunni og birgjum, til eins eða tveggja mánaða. Árið 2019 var talsverður lyfjaskortur hér á landi og má mögulega rekja það hreinlega til náttúruhamfara í Kína. Svona er birgðakeðjan löng. Hérlendis eru líka meiri líkur á að afleiðingarnar verði alvarlegri en í nágrannalöndum þegar og ef upp kemur skortur. Ástæður eru margvíslegar en stefnu stjórnvalda er líklega sú umfangsmesta. Skráð hámarksheildsöluverð sjúkrahúslyfja skal miðast við lægsta verð í öðrum norrænum ríkjum í stað meðalverðs sem áður gilti. Þessi breyting var gerð eftir hrun en hún hefur valdið því að Ísland er síður aðlaðandi markaðssvæði fyrir lyfjaframleiðendur. Vandann sem fylgir smáum markaði má leysa með því að verða hluti af stærri kaupendamarkaði, t.d. í samstarfi við Norðurlöndin. Það væri líka hægt að fjölga skráðum lyfjum á markaði en þar stöndum við okkur mjög illa og hjálpar ekki að vanfjármagna lyfjakaup hvert einasta ár, fjárlög eftir fjárlög, eins og kemur í ljós þegar aukafjárlög eru gerð. Í skýrslunni er lagt til að lyfjaskráning verði gerð miðlæg en það eitt og sér leysir ekki vandann. Í tilkynningu frá Parlogis kemur fram að skilvirkasta leiðin til að takmarka neikvæð áhrif lyfjaskorts er án efa að fjölga skráðum lyfjum á íslenska markaðnum. Til þess að það megi gerast þurfa yfirvöld að breyta leikreglum á þann hátt að þær taki mið af sérstöðu Íslands. Ég velti fyrir mér hvort það sé til skoðunar að breyta þessu. Er til skoðunar að við fylgjum Norðurlöndunum meira og ef það er til skoðunar, hver er þá tímaramminn? Það er oft sagt að við lifum á viðsjárverðum tímum og það hlýtur að vera grundvallaratriði að við eigum lyf í landinu til að lækna fólk. Eða á bara að búa til annan starfshóp til að komast að því sama eftir tvö ár o.s.frv.? Það kom einmitt fram í skýrslu þjóðaröryggisráðs frá 2021 að við ættum birgðir af lyfjum að meðaltali fyrir í einn mánuð í senn en fyrirhugað sé að endurmeta birgðaþörf og hér erum við tæpum tveimur árum síðar að ræða um birgðastöðu upp á einn mánuð og að það þurfi að skoða

Næst skulum við skoða orkumálin okkar. Í orkustefnu Íslands frá árinu 2020 er kallað eftir því að horft sé til alþjóðlegra viðmiða um lágmarksbirgðir af eldsneyti í landinu. Samkvæmt orkustefnu eiga birgðir hér að vera til 90 daga en núna erum við að horfa upp á 20–50 daga birgðir í landinu. Þotueldsneytisbirgðir hafa hins vegar farið niður í tíu daga. Þessi skýrsla kallar eftir aðgerðum til að ná markmiðum orkustefnu. Ég verð að segja að það er sorglegt en á sama tíma kómískt að lesa skýrslu um stefnu sem kallar á aðgerðaáætlun. Ég get ekki ímyndað mér neitt fyrirtæki eða heimili sem myndi sætta sig við slík vinnubrögð. Við tölum svo oft um hvað við erum heppin þegar kemur að orkuöryggi en raunin er sú að við erum í 52. sæti af 100 löndum þegar kemur að orkuöryggi og erum við fyrir neðan flest lönd í Evrópu. Það kemur til vegna skorts á neyðarbirgðum. Í þessu ljósi má benda á að ef við hefðum gengið í Evrópusambandið þá værum við með tilskipun um 90 daga birgðaskyldu. Þar sem hún fellur utan EES-samningsins hefur sú tilskipun ekki verið innleidd hér á landi. Þar sem margir andstæðingar Evrópusambandsins segja svo oft að við getum bara gert hlutina sjálf þá má benda á að þetta var rætt 2011 og nú, rúmum áratug síðar, hefur ekkert gerst. Við getum kannski gert þetta sjálf en við verðum þá að gera það. Það er gott að við erum sjálfum okkur nóg í raforkumálum að mestu en við erum víðs fjarri því markmiði þegar kemur að öðrum orkugjöfum. Matvælaframleiðslan okkar byggist að stórum hluta á olíu, traktorarnir keyra á olíu og gleymum því ekki að þeir eru líka framleiddir erlendis sem og öll önnur framleiðslutæki. Svo má nefna að þó að margt sé gott í okkar raforkukerfi erum við í þeirri stöðu að geta framleitt orku sjálf en ef til bilana kemur, t.d. í dreifikerfinu, þarf íhluti og þessir íhlutir eru flestir búnir til annars staðar. Við þessu er kannski ekki til nein töfralausn en við þurfum að vera meðvituð um stöðuna.

Mig langar, virðulegur forseti, hér undir lok þessarar ræðu að benda á efnisgrein úr þverfaglegri áhættumatsskýrslu frá 2009 eða fyrir 13 árum sem samin var þegar varnarliðið fór frá landinu. Í henni segir, með leyfi forseta:

„Bankahrunið sýndi að vöruskortur getur orðið ef greiðslumiðlunarkerfið innanlands og viðskipti við útlönd stöðvast í einhvern tíma. Meta þarf í samráði við einkaaðila nauðsyn þess að auka birgðir ákveðinna matvælategunda í landinu, t.d. þannig að þær nægi í sex mánuði. Eins og staðan er núna nægðu þær aðeins í fáar vikur. Enn fremur væri æskilegt að koma upp neyðarbirgðum af olíu. Leggja þarf mat á hversu mikla olíu þyrfti til að tryggja að grundvallarstarfsemi héldi áfram þótt neyðarástand skapaðist í nokkurn tíma. Auka þarf birgðahald á nauðsynjalyfjum og ákveðnum hjúkrunarvörum í landinu. Tryggja þarf með skipulegri hætti að bóluefni og önnur lyf séu geymd á öruggum stað með góðu aðgengi svo að unnt sé að dreifa þeim þegar á þarf að halda.“

Nánast allt þetta kemur fram í skýrslunni sem hér um ræðir og staðan virðist vera svipuð og hún var fyrir 13 árum síðan þrátt fyrir bankahrun, heimsfaraldur og nú stríð. Ég hreinlega velti því fyrir mér hvað þarf að gerast svo einhver fari að bretta upp ermar og lagar stöðuna.

Virðulegi forseti. Skilaboðin eru skýr þegar maður les þessa skýrslu. Það þarf að halda utan um almenna birgðastöðu á mikilvægum innviðum og það þarf einhvern miðlægan aðila til að halda utan um það. Það þarf síðan að gera ákveðnar lagabreytingar til að ákveðið lágmarksviðbragð sé til í landinu. Við þurfum að vera meira sjálfbær þegar kemur að mörgum sviðum samfélagsins, sérstaklega þegar horft er á matvælaframleiðslu. Í skýrslunni er nefnt á mörgum stöðum að kalla þarf aðila að borðinu til að skipuleggja næstu skref, sem ég hefði talið rétt að þessi starfshópur hefði hreinlega gert og við værum hér að ræða um aðgerðaplan. Það sem þarf er auðvitað aðgerðaplan. Það mega ekki líða fleiri ár með fleiri skýrslum áður en eitthvað gerist.

Virðulegur forseti. Nú þarf að bretta upp ermar og vinna vinnuna.