Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 12. fundur,  11. okt. 2022.

Vísinda- og nýsköpunarráð.

188. mál
[17:22]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að leggja fram þetta mikilvæga frumvarp en það er löngu kominn tími til að endurskoða þetta gamla Vísinda- og tækniráð sem var því miður ekki að skila því af sér því sem vænst hafði verið til enda stórt ráð, margir hagaðilar og aðrir og kannski ekki auðvelt í 23 manna ráði að ná fram einni sýn. Við sjáum bara hvað er stundum erfitt að fá níu manns í nefndunum til að hlusta hér á þinginu.

Þeir sem ég hef talað við úr nýsköpunarsamfélaginu, en þar þekki ég mjög marga, eru mjög ánægðir með breytingarnar og bera miklar vonir til þess að þær hafi góða hluti í för með sér. Þá er sérstaklega horft til þess að fólk sem er skipað í Vísinda- og nýsköpunarráð sé, eins og fjallað er um í frumvarpinu og greinargerðinni, með faglega og góða þekkingu en ekki skipað af því að það er tengt einhverjum hagsmunaaðila í réttum flokki eða hvað sem er stuðst við í ýmsum skipunum í nefndir og ráð. Það er mjög mikilvægt að við veitum ríkisstjórninni ráðleggingar í gegnum fagaðila en ekki einungis í gegnum pólitíska eða hagsmunaskipaða aðila. Því er þetta mjög mikilvægt skref og ég lýsi fullum stuðningi við það.

Mig langaði samt að nefna nokkur atriði í þessu. Eitt varðar það að ég hefði viljað sjá þetta ráð funda oftar. Ég er ekki viss um að þrjú skipti á ári nægi til þess að ræða þær miklu breytingar sem eiga sér stað í heiminum. Jafnvel mætti hugsa svolítið um hvort þetta ráð gæti t.d. fundað a.m.k. einu sinni á ári með grasrótinni úr nýsköpunarsamfélaginu, það þyrfti ekki að vera á mjög formlegan hátt, vegna þess að það er mjög mikilvægt að einnig sé hlustað á raddir þeirra sem eru í nýsköpuninni og að þær séu með. Ég held það væri bara af hinu góða fyrir ráðið að hitta slíkt fólk.

Mig langar líka að ræða hversu mikið við setjum í nýsköpun. Það er að mínu mati af hinu góða og mun skila sér í miklum tekjum til ríkisins í framtíðinni og samfélagsins alls. Þá er mikilvægt atriði, t.d. þegar við skipum í þetta ákveðna ráð, að mikið af þeim breytingum og nýsköpun sem munu eiga sér stað á næstunni verða á sviði loftslags- og orkumála. Þar væri mikilvægt að horfa til þess hvort einhver í nýsköpunarráðinu hafi til að mynda góða og mikla þekkingu á grænni nýsköpun.

Síðan getum við sennilega talað lengi um samkeppnissjóðina og endurgreiðslurnar en það á kannski ekki við þetta ákveðna frumvarp. Það eru kostir og gallar við hvora leiðina fyrir sig og við þurfum að ræða á þinginu hvora leiðina við viljum fara. Að lokum held ég að við ættum að reyna að finna leið til að gera svona lagabreytingar auðveldari. Allt of oft er bara verið að skipta út Vísinda- og tækniráði fyrir Vísinda- og nýsköpunarráð í mörgum greinum. Svo sé ég að það er búið að leysa þetta með ráðherrana. Nú er ekki lengur talað um nýsköpunarráðherra heldur ráðherra sem fer með nýsköpun. Við þurfum að finna einhverja góða lausn á því. Annars er þetta hið besta mál sem ég vona að fari hratt og vel í gegnum þingið.

Mig langar samt að hvetja til þess að allsherjar- og menntamálanefnd tali við atvinnuveganefnd, sem hefur mikið með nýsköpun að gera, og fái hennar álit á þessu. Við í atvinnuveganefnd getum gert það hratt og vel þannig að það tefji ekki málið. En ég held að mikilvægt sé að hafa í huga, eins og hæstv. forsætisráðherra talaði um, að þetta hefur áhrif á alla atvinnuvegi. Þetta hefur áhrif á svo margt sem snertir það sem atvinnuveganefnd gerir, þó svo að þetta hafi líka með vísindi að gera sem eru undir allsherjar- og menntamálanefnd, og því held ég að væri gott að þessar tvær nefndir töluðu saman um málið.