Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 12. fundur,  11. okt. 2022.

ákvörðun nr. 53/2021, nr. 54/2021, nr. 385/2021 og nr. 146/2022 um breytingar á IX. viðauka við EES-samninginn.

280. mál
[17:30]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd fjórar ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar á sviði fjármálaþjónustu frá árunum 2021 og 2022 með breytingum á 9. viðauka EES-samningsins. Ég mun hér stuttlega gera grein fyrir efni þeirra efnisreglna sem hér eru felldar inn í samninginn með hverri ákvörðun fyrir sig.

Í fyrsta lagi eru með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 53/2001 felldar inn í EES-samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2019/1156 frá 20. júní 2019 um að auðvelda dreifingu sjóða um sameiginlega fjárfestingu yfir landamæri og breytingar á nokkrum tengdum gerðum ásamt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2019/1160 frá 20. júní 2019 um breytingu á tilteknum tilskipunum sem varða dreifingu sjóða um sameiginlega fjárfestingu yfir landamæri. Markmið þessara gerða er að auðvelda dreifingu sjóða yfir landamæri með því að draga úr tilteknum laga- og reglubundnum hindrunum. Á sama tíma er þó gætt að fjárfestavernd. Áformað er að innleiða gerðirnar með nýjum heildarlögum um sölu sjóða og um sameiginlega fjárfestingu yfir landamæri. Stefnt er að framlagningu frumvarps þess efnis á þessu löggjafarþingi. Gera þarf breytingar á lögum um verðbréfasjóði og lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða. Einnig þarf að breyta lögum um evrópska áhættufjármagnssjóði og evrópska félagslega framtakssjóði við innleiðingu gerðanna.

Næst er ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 54/2001. Með henni er felld inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2016/2341 frá 14. desember 2016 um starfsemi og eftirlit með stofnunum sem sjá um starfstengdan lífeyri. Um er að ræða endurútgáfu á eldri tilskipun um sama efni. Tilskipunin sem hér er felld inn í samninginn felur í sér nokkrar breytingar en henni er ætlað að tryggja góða stjórnunarhætti, upplýsingagjöf til sjóðfélaga og gagnsæi, auk öryggis starfstengda lífeyriskerfisins. Með þessu er stuðlað að auknum hreyfanleika launafólks innan EES-svæðisins.

Innleiðing á þessari tilskipun kallar á breytingar á lögum nr. 78/2007, um starfstengda eftirlaunasjóði, eða ný lög í þeirra stað. Stefnt er að framlagningu frumvarps þess efnis á yfirstandandi löggjafarþingi. Engir starfstengdir lífeyrissjóðir eru starfandi hérlendis og óvíst hvort innleiðingin hafi einhver áhrif á stofnun slíkra sjóða.

Næst er ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 385/2021, en með henni er tekin inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2015/2365 frá 25. nóvember 2015 um gagnsæi í fjármögnunarviðskiptum með verðbréf og um endurnotkun og breytingu á tengdri reglugerð. Reglugerðin er almennt kölluð SFTR úr enska heitinu „Securities financing transactions regulation.“ SFTR felur í sér nýjar skyldur hvað varðar gagnsæi vegna fjármögnunarviðskipta. Einnig er felld inn í samninginn reglugerð framkvæmdastjórnarinnar sem varðar aðila sem njóta undanþágu. Henni er ætlað að viðhalda sama réttarástandi hvað varðar undanþágur aðila frá SFTR eftir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Við upptöku á SFTR í EES-samninginn er þörf á efnislegum aðlögunum til að virða tveggja stoða kerfi EES-samningsins og veita Eftirlitsstofnun EFTA tiltekið hlutverk í stað Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunarinnar. Þetta er allt í samræmi við það sem hefur verið gert í sams konar tilvikum á sviði fjármálaeftirlits. Gert er ráð fyrir að sett verði sérlög um gagnsæi í fjármögnunarviðskiptum til að veita reglugerðunum lagagildi hér á landi og fyrirhugað er að leggja fram frumvarp þess efnis á yfirstandandi löggjafarþingi.

Að lokum skal nefnd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 146/2022 sem tekur inn í EES-samninginn framselda reglugerð framkvæmdastjórnarinnar 2002/27 frá 27. september 2001 um lækkun viðmiðunarmarka fyrir tilkynninguna um verulegar hreinar skortstöður í hlutabréfum. Varðar þetta félög þar sem hlutabréf hafa verið tekin til viðskipta á viðskiptavettvangi. Það þarf að veita reglugerðinni lagagildi með breytingu á lögum um skortsölu og skuldatryggingar. Fyrirhugað er að leggja fram frumvarp þess efnis á yfirstandandi löggjafarþingi. Upptaka framseldu reglugerðarinnar í íslenskan rétt mun auka upplýsingagjöf og gagnsæi vegna skortsalna í hlutabréfum sem tekin hafa verið til viðskipta á viðskiptavettvangi hér á landi.

Frú forseti, haft var samráð við viðeigandi þingnefndir Alþingis vegna upptöku umræddra gerða í samninginn sem gerðu ekki athugasemdir við upptöku þeirra á þann hátt sem þingsályktunartillagan tilgreinir. Ekki er gert ráð fyrir að innleiðing gerðanna hafi veruleg áhrif á stjórnsýslu eða fjárhag ríkisins og ég legg því til hér, virðulegi forseti, við lok þessarar umræðu að tillögunni verði vísað til hæstv. utanríkismálanefndar.