Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 12. fundur,  11. okt. 2022.

stjórn fiskveiða.

19. mál
[18:03]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir framsögu á þessu mikilvæga máli. Eins og kom fram í máli hv. þingmanns er mjög sterk krafa í samfélaginu að þessar takmörkuðu auðlindir þjóðarinnar séu ekki í höndum kannski 20 einstaklinga sem eiga í raun, í gegnum alls konar flækjur, eignarhaldsfélög og annað, tæp 60–80% kvótans. Það er áhugavert að heyra að menn vilji berjast gegn því að raunverulegir eigendur séu skilgreindir sem 25%. Kannski er það vegna þess að þá myndu ansi mörg fyrirtæki ekki standast þær kröfur. Rétt eins og hv. þingmaður benti á virðist ekki mega hrófla við neinu í tengslum við sjávarútveginn. Stundum spyr maður sig hvort það sé vegna þess hversu mikið er um styrki frá þessum aðilum til ákveðinna flokka.