Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 12. fundur,  11. okt. 2022.

almannatryggingar.

44. mál
[18:25]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég skal alveg viðurkenna að þegar þetta kom upp á sínum tíma — þá vorum við að vinna í velferðarnefnd — þá trúði ég ekki mínum eigin augum þegar ég sá frumvarpið og hvers vegna í ósköpunum þeir hefðu sett þetta inn. Þetta var gert á síðustu metrunum og ég fór að skoða málið. Ef ég man rétt þá barst athugasemd frá ASÍ, held ég, alla vega frá verkalýðshreyfingunni þar sem beðið var um að hlutfallið færi ekki upp í 100%. Ég man ekki hver ástæðan var en ef hún var einhver þá var hún bara fáránleg. Í fyrsta lagi: Ef þú ert að hjálpa fólki þá ertu að búa eitthvað til. Lágmarksellilífeyrir er ekkert svakaleg upphæð heldur eitthvað sem þú tórir á, við vitum það. En að detta í hug að lækka þetta um 10% af engri ástæðu annarri en þeirri að það þurfi að refsa þessu fólki sem bjó erlendis og það sé einhvern veginn öðruvísi — ég gat aldrei fengið rökstuðning fyrir því. Það gerði mig foxillan að einhver gæti gert þetta, og þegar þeir settu síðan krónu á móti krónu skerðinguna inn í þetta líka þá hugsaði ég með mér: Gott og vel, við fórum eitt skref áfram en þeir tóku þrjú skref aftur á bak. Þetta eina skref áfram var að lækka krónu á móti krónu skerðingu niður í 65 aura á móti krónu, en þá sáu þeir allt í einu að þarna gætu þeir skellt á krónu á móti krónu og haft þetta 90%, einungis af því að þeir gátu það. Það held ég að hafi verið niðurstaðan.