Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 12. fundur,  11. okt. 2022.

almannatryggingar.

44. mál
[18:33]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni fyrir ræðuna. Það er nefnilega eitt sem við gleymdum í allri umræðunni. Einstaklingur sem flytur til útlanda, búinn að vera í námi á Íslandi til kannski 25 ára aldurs, ákveður að fara í framhaldsnám erlendis og vera þar til kannski 35 ára aldurs áður en hann kemur heim, hann nær ekki 40 ára búsetu. Honum er refsað.

Hugsa sér vanmáttinn í kerfinu, að við skulum geta verið með svona kerfi. Hitt er líka, eins og hefur oft komið fram, að ef einstaklingur í almannatryggingakerfinu ákveður að fara utan, til dæmis öryrki, og er búsettur erlendis þá missir hann öll önnur réttindi fyrir utan grunnréttindi. Almannatryggingakerfið er byggt upp sem refsikerfi. Ef viðkomandi einstaklingur er inni í þessu kerfi er hann orðinn hálfgerður glæpamaður og það þarf að refsa honum ef hann skyldi nú einhvers staðar fá eitthvað aukalega. Þess vegna hef ég kallað þetta keðjuverkandi skerðingarkerfi.

Ég spyr hv. þingmann að því hvort hann sé ekki sammála mér um að það einfaldasta sem við gætum gert væri að núllstilla almannatryggingakerfið og einfalda það. Við eigum að geta gert það svo einfalt að hvert einasta mannsbarn skilji það og tekið út allar þessar skerðingar þannig að við skerðum ekki fyrr en viðkomandi er kannski kominn upp í meðallaun eða miðgildi lágmarkslauna viðkomandi stéttar.