154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

afsögn fjármála- og efnahagsráðherra.

[13:56]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Virðulegi forseti. Bara fyrir skýrleika málsins, sem er nú samt stórt, mikið og víðfeðmt eins og við þekkjum, með marga vinkla, þá langar mig að taka fram, bara varðandi þetta álit og þessa umræðu hér og nú, svo að ekki sé kannski verið að ýja að því að ósekju að málið snúist um mun stærri og jafnvel alvarlegri hluti heldur en raunin er, að það er alltaf ábyrgðarhluti þegar koma fram svona athugasemdir um túlkun umboðsmanns, ég er ekki gera lítið úr því. En ég vil hins vegar taka fram að það er erfitt að túlka álit hans varðandi vanhæfi ráðherra á annan hátt en að ekki sé mögulegt að selja hlut ríkisins í bönkum öðruvísi en með beinni sölu þar sem ráðherra skoði hvert tilboð fyrir sig. Bara svo við áttum okkur á um hvað þetta snýst. Í álitinu bendir umboðsmaður á að þó svo að í lögunum frá 2012 sé gert ráð fyrir sölu með svonefndu tilboðsfyrirkomulagi, þá sé ekki að finna í þeim lögum undanþágu frá reglum um sérstakt hæfi. Í því liggur ómöguleikinn. Það er það (Forseti hringir.) sem við verðum að skoða. Um það snýst þetta mál í botn og grunn.