154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

afsögn fjármála- og efnahagsráðherra.

[14:01]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Mér finnst mikilvægt að koma hingað upp því að mér finnst svo augljóst að orðræða eða „propaganda-vél“ — afsakaðu slettuna, forseti — Sjálfstæðisflokksins er komin í gang til þess að mála fjármálaráðherra upp sem einhvern veginn voðalega saklausan, en samt þurfti hann að segja af sér. Gerði eiginlega ekkert af sér, segir samt af sér og er algjör hetja fyrir það. Þótt ég beri virðingu fyrir því að hæstv. fjármálaráðherra hafi tekið þetta skref og sagt af sér, út af því að það er ofboðslega mikilvægt fordæmi og eitthvað sem hefði átt að gerast fyrir löngu síðan, þá þurfum við samt að muna að þetta brot lá fyrir og hefur legið fyrir lengi. Stjórnarandstaðan öll benti á þetta. Við kölluðum eftir rannsóknarnefnd til að kafa ofan í þetta sem okkur var neitað um og okkur hefur verið neitað um það í eitt og hálft ár. Það eitt og sér sýnir að hæstv. fjármálaráðherra, flokkur hans og ríkisstjórn töldu of hættulegt að rannsaka þetta of náið. (Forseti hringir.) Því frábið ég mér þessa orðræðu. Þetta var alvarlegt brot og það er ástæðan fyrir því að fjármálaráðherra stígur réttilega til hliðar og segir af sér. Þetta er alvarlegt brot og ekki eitthvert léttmeti.