154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

afsögn fjármála- og efnahagsráðherra.

[14:04]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Forseti. Hér hafa margir þingmenn talað um alls konar ómöguleika en ég verð bara að játa að ég skil ekki í hverju sá ómöguleiki felst vegna þess að það hlýtur að vera þekkt hvaða aðilar teljast tengdir þeim sem koma að sölu ríkiseigna. Þegar það er búið að safna saman þeim sem bjóða í hlutina þá ætti að vera í lófa lagið að greina það hvort einhver þeirra kennitalna sem um ræðir tengist þessum aðilum. Ég skil ekki hvernig það vefst fyrir fólki, þetta er bara nokkuð gömul tækni og hefði átt að vera hægt seint á síðustu öld, hvað þá núna. Þetta ætti ekki að vera neitt sérstaklega flókið og ætti ekki að vefjast fyrir neinum. Ef einhver er raunverulega að halda því fram að þetta sé ómögulegt — það er kannski ómögulegt að lesa í gegnum ótal skjöl og kanna það þannig, en það er ekki leiðin sem á að fara. Það eru margar aðrar færar.