154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

samgönguáætlun fyrir árin 2024-2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024-2028.

315. mál
[16:03]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. innviðaráðherra fyrir framsöguna. Það sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra varðar innviðaskuld Vestfjarða. Núna eru Vestfirðir búnir að vera í mikilli lægð undanfarna áratugi en eru að koma núna upp og nú er að verða mikil uppbygging í atvinnulífi á Vestfjörðum og ég spyr hvort það sé ekki mikilvægt að þessi innviðaskuld verði greidd og hvort þess sjáist merki í samgönguáætlun að það sé verið að greiða þessa innviðaskuld við Vestfirði og þar verði m.a. litið til jöfnunar búsetuskilyrða. Núna hafa búsetuskilyrði á Vestfjörðum verið verri, má segja, út af þessari innviðaskuld. Er ekki kominn tími til að það verði jöfnuð búsetuskilyrði með átaki í samgöngum á Vestfjörðum, líka með hliðsjón af þeirri miklu atvinnuuppbyggingu sem á sér stað núna? Mætti ekki gera það þá með því að bjóða út þrenn jarðgöng í einu? Það verði boðin út í einu Súðavíkurjarðgöng, jarðgöng um Mikladal og Hálfdán svo að Vestfirðingar geti gengið að því vísu á næstu árum að þessi jarðgöng verið gerð. Það væru mikil samlegðaráhrif af þessari jarðgangagerð ef þetta væri boðið út í einu lagi þannig að verktakinn gæti hagrætt vinnu sinni sem því næmi og við værum þá örugg um það að ríkisvaldið, Alþingi, myndi sjá til þess að þessi framkvæmd myndi fá viðeigandi fjármagn.

Annað sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um er hvort það sé ekki kominn tími á að vera með áætlun einfaldlega til að fækka malarvegum, séráætlun.

Og í þriðja lagi þá langar mig að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort tímaáætlun varðandi Sundabraut muni halda í ljósi samninga við Reykjavíkurborg og hvort gert sé ráð fyrir kærum sem þar geta átt sér stað varðandi umhverfismat og skipulagsmál. Ég get tekið dæmi. Ég var lögfræðingur Skipulagsstofnunar upp úr árinu 2000 og þar var á borði mínu Teigsskógur sem núna er verið að vinna í tæpum 20 árum seinna.