131. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2004.

Sameining Tækniháskólans og Háskólans í Reykjavík.

[13:48]

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég segi fyrir mitt leyti að sameiningar háskóla gætu leitt til ýmislegs góðs. Mér finnst að við eigum að skoða það heildrænt fyrir allt háskólastigið betur hvort skynsamlegt sé að sameina háskóla og þá hverja.

Hins vegar varðandi akkúrat þetta dæmi þá vil ég eins og aðrir hér slá varnagla við því að þessar sameiningar gætu leitt til aukinnar gjaldtöku af nemendum í grunnnámi á háskólastigi.

Virðulegi forseti. Ég kem aðallega upp vegna þess að mér finnst vanta inn í þessa umræðu og líka í þær upplýsingar sem hafa komið fram um þessa sameiningu og það er hvort eignir Tækniháskólans hafi verið verðmetnar, hvert virði þeirra sé og hvort greitt sé fyrir þær beint eða hvort ríkið eignist ákveðinn hlut í skólanum eða sjálfseignarstofnuninni. Ég vil varpa spurningu til menntamálaráðherra: Stendur til að ríkið eigi hlut í þessari nýju sjálfseignarstofnun eða verða eignir Tækniháskóla Íslands heimanmundur skólans inn í þetta hjónaband skólanna tveggja?