133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[23:35]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Vandinn er auðvitað sá að í raun og veru er sama hvað menn setja inn í lög eða hvort menn setja ekkert inn í lög um að það megi eða megi ekki selja hlut í opinberu fyrirtæki, Alþingi getur alltaf breytt því. Það vald verður aldrei frá Alþingi tekið að breyta lögum.

Það sem skiptir máli er að það liggi skýr og heiðarlegur pólitískur vilji fyrir um hvað menn ætla sér. Það sem ég var að gagnrýna er að menn hafa sett alls konar hluti inn í lög eða greinargerðir með stjórnarfrumvörpum í þægindaskyni og til þess að reyna að auðvelda sér að koma málum í gegn og svo hefur aldrei staðið til að standa við það. Það er veruleikinn sem einkavæðingarferlið er varðað af og það eru þau spor sem hræða í þessum efnum.

Nú man ég ekki hvernig það var með Símann í byrjun eða Póst og síma, hvort það stóð jafnvel þar, sem er auðvitað tátólógía og út í loftið að setja inn í lög, að það mætti ekki selja nema með sérstöku samþykki Alþingis, sem aldrei má hvort sem er. Það er náttúrlega eins og hver önnur vitleysa þegar menn hafa gripið til þess að setja slíkt inn en það hefur stundum verið gert. Hér stendur að það sé óheimilt að selja og það er nákvæmlega eins lagabreytingarvinna og hver önnur að koma með frumvarp og segja: Þrátt fyrir ákvæði í 2. málslið 1. gr. laga um Ríkisútvarpið ohf. er heimilt að selja þetta eða gera hitt. Það er bara eitt frumvarp hér í gegn. Menn verða auðvitað að átta sig á þessu.

Varðandi Símann, af því að hv. þingmaður nefndi hann í andsvari og var að hrósa því hve Framsókn hefði staðið vel að því máli í samræmi við ályktanir frá 2001. Hver er nú reynslan? Í fyrsta lagi hefur einkavæðing Símans leitt af sér einkavædda einokun, einkavædda fákeppni með grenjandi klögumálum um gjaldskrármál. Í öðru lagi liggur fyrir að gjaldskrárnar hafa stórhækkað á Íslandi á sama tíma og þær lækka í nágrannalöndunum. Það er nú árangurinn sem snýr að neytendum. Og í þriðja lagi hefur enn ekkert gerst þrátt fyrir loforðin um að styrkja dreifikerfið, um að bæta fjarskiptin. Það er ekki einu sinni komið af stað (Forseti hringir.) fyrsta útboðið sem fara á í í þeim efnum.