140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

aðgerðaáætlun um tóbaksvarnir.

20. mál
[16:04]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég átti ekki alveg auðvelt með að skilja hvað fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, vildi varðandi þetta mál — halda áfram á sömu braut var sagt. Ég tel ekki æskilegt að halda áfram á sömu braut, þ.e. gera ekki neitt nýtt, ég tel að við eigum að taka ný róttæk skref eins og hér er lagt til.

Hv. þingmaður nefndi apótekin, að þau væru ekki mörg, en þau eru alveg nógu víða. Þeir sem reykja mundu alveg geta náð sér í sitt tóbak áfram eftir að það væri selt einungis í apótekum. ÁTVR er líka alveg nógu víða til að fólk gæti nálgast tóbak sitt í gegnum ÁTVR.

Heilsugæslan þolir ekki að ávísa var sagt. Hún mundi alveg þola að ávísa seðlum, algerlega, að mínu mati. Það yrðu ekki margar ávísanir. Þær mundu líklega gilda í langan tíma hjá þeim sem væru skilgreindir með tóbaksfíkn, það væri því ekkert mál.

Ég hef hins vegar fundið að innan Sjálfstæðisflokksins hafa verið efasemdir. Ég man þegar við bönnuðum reykingar á veitinga- og skemmtistöðum var haldinn upplýsingafundur hjá SUS. Þar komu t.d. fulltrúar tóbaksframleiðenda sérstaklega á fundinn. Það var svolítið gaman að því, ég hélt að það væru læknar en svo var ekki. Ég held að Heimdallur hafi ályktað í vor og dregið í efa að óbeinar reykingar væru skaðlegar og ég veit ekki hvað og hvað. Það eru því ýmsar hugmyndir á lofti innan Sjálfstæðisflokksins sem ég kvitta ekki upp á. En ég fagna því að hv. þingmaður skuli taka jákvætt undir þessa baráttu almennt en það hefði verið ágætt að fá sterkari viðhorf gagnvart þessari tillögu sem slíkri.