140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

aðgerðaáætlun um tóbaksvarnir.

20. mál
[16:11]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil gjarnan bregðast við ræðu hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar af því að ég á ekki von á að fleiri sjálfstæðismenn taki til máls. Mér finnst mikilvægt að átta mig á hvað Sjálfstæðisflokkurinn vill í málinu.

Hér er sagt að ekki eigi að vera boð og bönn, en það eru boð og bönn í þessum málaflokki eins og svo mörgum öðrum málaflokkum. Það er t.d. bannað selja ungmennum tóbak. Árið 2007 bönnuðum við reykingar á veitinga- og skemmtistöðum, það er bann. Stundum þarf að grípa til boða og banna. (Gripið fram í.)

Varðandi það mál sem hér er flutt — það er ekki verið að banna tóbak, það verður áfram selt. Það er bara spurning hvar á að selja það. Reyndar viljum við banna reykingar í bílum með börnum. Það eru ýmis boð og bönn í málinu líka, en það sem er kannski mest umdeilt er þetta með apótekin eða ÁTVR.

Hér var sagt: Vilja menn færa þessi rosalegu tóbaksviðskipti til tveggja hringja, lyfjahringja? Í dag eru lyf seld einungis hjá þessum tveimur hringjum eða í þessum apótekum sem til staðar eru. Lyf eru seld þar í dag. Þannig er staðan. Ég sé ekkert athugavert við það að tóbakið fari þangað líka og reynt að tengja það þannig við heilbrigðisþjónustuna með tilvísunum eða tóbaksseðlum. Heilsugæslan ræður algjörlega við það. Þetta yrði ekki sligandi verkefni fyrir heilsugæsluna, alls ekki, það eru ekki það umfangsmikil skrif sem þyrftu að fara fram með þeim hætti. Alls ekki.

Ef tóbak yrði selt í ÁTVR vil ég benda hv. þingmanni á að þau gríðarlegu viðskipti með tóbakið færu þá inn í ÁTVR þar sem allt áfengi er selt. Allt áfengi er selt í ÁTVR í dag. Er það rosalegt? Nei, ég bara styð það, mér finnst það frábært. Ég er t.d. ekki talsmaður þess að áfengi verði selt í matvöruverslunum eins og margir telja að sé rétt að gera. Ég er algjörlega á móti því. Ég tel því að tóbak gæti alveg farið inn í ÁTVR þó að ég hefði frekar viljað fá tóbakið inn í apótekin.

Það er nú svo að maður hefur ákveðna reynslu af samstarfi um þessi mál. Ég nefndi áðan upplýsingafund sem SUS hélt um þá tillögu að banna reykingar á veitinga- og skemmtistöðum á sínum tíma. Þangað mættu fulltrúar tóbaksinnflytjenda. Ég hélt þá vera lækna sem sátu á fyrsta bekk og fylgdust með fundinum og var agalega ánægð með það. En þetta voru fulltrúar tóbaksinnflytjenda og það var svo sem ágætt að þeir voru þarna að fylgjast með umræðunni. Þetta var eini fundurinn sem ég rakst á þá, þeir voru þarna.

Ég vil líka nefna að Heimdallur ályktaði, að ég held í vor, um þetta mál. Þar komu fram efasemdir um skaðsemi óbeinna reykinga. Þegar við fjölluðum árið 2007 um bann við reykingum á veitinga- og skemmtistöðum komu hér upp fulltrúar einungis frá einum flokki sem dró í efa skaðsemi óbeinna reykinga. Þeir voru frá Sjálfstæðisflokki. Þar með er ekki sagt að sú er hér stendur segi að Sjálfstæðisflokkurinn sé á móti forvörnum, alls ekki, það er nú gamalt trix sem hv. þingmaður notaði hér „let them deny“ — látum þau afneita einhverjum orðum — það hef ég ekki sagt. Ég tel að í Sjálfstæðisflokknum sé fólk sem vill mjög vel í forvörnum. Þess vegna eru það mér að vissu leyti ákveðin vonbrigði að það vildi enginn, ekki einn einasti sjálfstæðismaður, vera með á þessu máli, enginn. Samt er þetta flokkur sem oft er klifað á að sé stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn. En það er opið fyrir hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson að skella sér á þetta mál ef hv. þingmaður vill, en þá felur það í sér að hv. þingmaður gæti séð fyrir sér að apótekin tækju að sér söluna eða ÁTVR eins og fram kemur í tillögunni.

Ég tel mjög brýnt að þingið skoði allt sem felst í aðgerðaáætluninni. Í henni eru gríðarlega mörg atriði. Þetta er mjög heildstætt plagg af því að svo margir sérfræðingar hafa unnið það. Mér er til efs að heilbrigðisráðuneytið eða velferðarráðuneytið hafi eitthvað miklu betra fram að færa því að þau hafa ekki á að skipa færari sérfræðingum en þeim sem hafa komið að málinu nú þegar.

Ég vona að þingið samþykki eins mikið af þessu og það telur sér unnt að samþykkja sem fyrst og skoði síðan vel þessi umdeildari atriði sem reyndar er búið að milda síðan málið var lagt fram í vor, opna á það að skoða ÁTVR-leiðina í staðinn fyrir að gera ekki neitt til dæmis. Það væri stórsigur að koma tóbakinu inn í ÁTVR. Þá gæti fólk nálgast það þar en börn og ungmenni væru varin miklu betur en í dag. Ég er sannfærð um að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, ásamt fleirum, vill leggja mikið á sig við að verja börn og ungmenni. Ég veit að það er alveg skothelt.