140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

aðgerðaáætlun um tóbaksvarnir.

20. mál
[16:20]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það virkar að vísu þannig í andsvörum að sá sem fer í andsvar spyr frummælanda en það er kannski aukaatriði.

Ég vil aðeins fara yfir það sem hv. þingmaður talaði um í sambandi við hringina og hringamyndunina því að hún getur ekki afgreitt þetta með þessum hætti. Hv. þingmaður hlýtur að vera þeirrar skoðunar að við viljum ekki færa völd til örfárra auðhringja á Íslandi. Það getur ekki verið … (Gripið fram í.) — að sjálfsögðu er einokun á tóbakssölu völd. Ef hv. þingmaður skilur ekki að einokun á tóbakssölu er völd þurfum við að ræða saman og fara vel yfir það. Við Íslendingar ættum að vita betur en flestir aðrir, virðulegi forseti, að það felast gríðarleg völd í einokunarverslun á hvaða sviði sem er og auðvitað mikill hagnaður sömuleiðis. Það er nokkuð sem við verðum að hafa í huga þegar við förum yfir það hvernig við viljum sjá verslun í landinu.

Stóra einstaka málið, virðulegi forseti, er hvernig við náum árangri í því að minnka (SF: Geturðu svarað spurningunni?) — ég vona að hv. þingmaður ætli ekki að trufla mig í andsvarinu — tóbaksneyslu. Hvaða leiðir eru bestar til þess? Telja menn að boð og bönn séu leiðirnar til þess? (Gripið fram í: Já.)

Við horfum upp á landasölu og smygl aftur eftir að búið er að hækka bæði áfengi og tóbak. Ég efast ekki um að þegar menn hækkuðu það hafi þeir ætlað sér að minnka neyslu á slíkum efnum en (Forseti hringir.) því miður fór neyslan annað, á svarta markaðinn.