141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:01]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að beina tveimur fyrirspurnum til hæstv. ráðherra. Þar sem ráðherrann las upp hversu margar teravattstundir væru í hverjum flokki þykir mér í fyrsta lagi mikilvægt að jafnframt komi fram í þingtíðindum hversu margar slíkar stundir eru utan þessarar áætlunar á grundvelli 3. mgr. 3. gr., þ.e. þeir kostir sem fara ekki í flokkun vegna þess að þeir eru á friðlýstum svæðum. Ég tel rétt að þetta komi fram í umræðunni.

Í öðru lagi langar mig að beina fyrirspurn til hæstv. ráðherra vegna þess rökstuðnings sem ráðherrann fór yfir um tilflutning á kostum, þ.e. Skrokkölduvirkjun og Hágönguvirkjununum í fyrsta og öðrum áfanga. Hér er þetta rökstutt með því að það eigi að horfa til sjónarmiða um útvíkkun eða „buffer zone“ í kringum þjóðgarða. Hvernig heimfærir hæstv. ráðherra þessa tilfærslu og þennan rökstuðning á lög? Hvernig er hægt að líta á flutning þessara kosta milli flokka af hálfu ráðherrans öðrum augum en þeim að hér sé um að ræða pólitísk afskipti af niðurstöðu? Hvernig í ósköpunum á það að vera hægt?

Hér er verið að bæta við einhvers konar sjónarmiðum og ég skil á engan hátt þennan rökstuðning. Ég tel þetta einfaldlega hvorki í samræmi við lögin né í samræmi við þá málsmeðferð sem var á undan gengin, þ.e. vinnu verkefnisstjórnar.