141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:25]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson hefði átt að lesa aðeins lengra í þingsköpunum þegar hann ræddi um hvert málið ætti að fara, því að í næsta málslið 13. gr. þingskapa segir um umhverfis- og samgöngunefnd, nokkuð sem mér finnst ástæða til að minna á hér, með leyfi forseta:

„Nefndin fjallar um umhverfismál, skipulags- og byggingarmál og rannsóknir, ráðgjöf, verndun og sjálfbærni á sviði auðlindamála almennt.“

Það gæti nú varla verið skýrara og er rétt að minna á það líka að umhverfis- og samgöngunefnd er eina nefnd þingsins sem fjallar bæði um umhverfis- og auðlindamál. Ég sit í hv. atvinnuveganefnd og ég veit ekki til þess að sú nefnd eigi að taka inn á sitt borð umhverfismál í almennum skilningi þess orðs eða verndun náttúruauðlinda.

Það hlýtur því að liggja algjörlega ljóst fyrir hvar málið skal vistað.

Það er athyglisvert að hlusta á hv. þingmann tala um pólitísk fingraför en vilja samt í tillögum sínum og málflutningi víkja frá samþykktri og löglegri málsmeðferð, sem er nefnilega sú málsmeðferð sem fylgt hefur verið í málinu eins og hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir rakti ágætlega í öðru andsvari hér áðan. Að þingmaðurinn skuli mælast til þess að ekki skyldi hlustað á umsagnir og aðvaranir almennings og að málið skuli ekki tekið til endurskoðunar á þeim grundvelli sem þó var samþykkt að yrði gert. Þess í stað vill þingmaðurinn vísa málinu að nýju til gömlu verkefnisstjórnarinnar. (Forseti hringir.)

Þá vil ég spyrja hv. þingmann: Hvert telur hann að sé hlutverk Alþingis í málsmeðferðinni almennt?