141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:40]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Mig langar að inna hv. þm. Jón Gunnarsson eftir tilteknu atriði sem kom fram í ræðu hans og reyndar hefur sá málflutningur oftar heyrst. Hann kom inn á það að hér sé í raun verið að koma í veg fyrir uppbyggingu og í veg fyrir verðmætasköpun í landinu með því að setja nokkra kosti í biðflokk. Mig langar í því samhengi að spyrja hv. þingmann út í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar sem var send atvinnuveganefnd sem hv. þingmaður situr í.

Þar kemur fram að Samtök ferðaþjónustunnar fagna því ekki einungis mjög að Bitra sé sett í vernd heldur hvetja og til þess að Innsti-Dalur, Þverárdalur og Ölfusárdalur séu einnig verndaðir ferðaþjónustunni í hag og til uppbyggingar og verðmætasköpunar í landinu. Þar kemur einnig fram að því er mjög fagnað að Skrokkalda og Hágönguvirkjanir 1 og 2 séu settar í biðflokk og hvatt til þess að þeir kostir séu settir í verndarflokk til að tryggja verðmætasköpun í landinu enda séu þessi svæði við jaðar stærsta þjóðgarðs Evrópu og ferðamenn geti þar notið víðernisins og íslenskrar náttúru sem við vitum að þeir eru fyrst og fremst komnir til að njóta.

Samtök ferðaþjónustunnar hvetja mjög sterklega til þess að svæði á Reykjanesskaganum séu sett í vernd til að hægt sé að byggja þar upp verðmætaskapandi ferðaþjónustu. Fleiri kostir, sem ekki gefst tími til að rekja hér, eru settir fram og mjög til þess hvatt að í þágu verðmætasköpunar og uppbyggingar í landinu séu svæði vernduð, (Forseti hringir.) ekki einungis sett í bið heldur vernduð.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki kominn tíma til að láta af þeim málflutningi (Forseti hringir.) að það að vernda svæði, ég tala nú ekki um þá vægu aðgerð að setja það í bið (Forseti hringir.) vegna alvarlegra ábendinga, gangi þvert gegn verðmætasköpun í landinu.