141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Róbert Marshall fyrir hjartnæma ræðu þótt ég hafi ekki verið ánægður með það þegar hann sagði að sjálfstæðismenn hefðu einfalda heimssýn. Ég vil meina að ég hafi ekki alveg einfalda heimssýn, en fyrst hann meinar þetta hlýtur sá dómur að standa.

Hv. þingmaður sagði að ef hér kæmi upp raunveruleg neyð mundu menn hugsanlega endurskoða kostina. Það segir mér að þetta er efnahagslegt fyrirbæri. Umhverfisvernd er í hugum hv. þingmanns efnahagslegt fyrirbæri. Ég vil spyrja hann: Hvað þarf neyðin að vera mikil svo hann virki Gullfoss?

Ég held að annað muni koma til og vil spyrja hv. þingmann að því. Ísland er með umhverfisvæna orku sem gæti á þann hátt bjargað mannkyninu frá því að jörðin hitni. Telur hann ekki að það sé skylda okkar að virkja eins og við teljum að náttúran leyfi?

En mig langar að koma inn á það mál sem við ræðum hér. Það var farið í ferli um að ná sáttum milli þeirra sem vilja virkja og hinna sem ekki vilja virkja. Ég var alls ekki sáttur við niðurstöðuna því ég vildi virkja meira en styð niðurstöðuna. Ég bara segi það, ég vildi virkja meira. Ég tel að þetta séu auðlindir þjóðarinnar og geti staðið undir velferðarkerfinu o.s.frv. En svo breyta menn frá niðurstöðunni. Ég vil spyrja hv. þingmann: Er þá ekki gefið færi á því fyrir fólk sem vill virkja, ef það kemst til valda, að það fylgi fordæmi hæstv. umhverfisráðherra og breyti frá hinu faglega mati eða þeirri sátt sem náðst hefur, og virki meira? Er þetta ekki stórhættulegt? Er ekki stórhættulegt fyrir verndarsinna að breyta frá faglegu mati?