142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

bygging nýs Landspítala.

[14:10]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Forseti. Ég vil fyrst af öllu þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir þær spurningar sem hann ber hér fram um hið brýna mál sem lýtur að úrbótum í málefnum heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi og sérstaklega að því eina atriði sem snýr að Landspítala – háskólasjúkrahúsi.

Hér er spurt um forvalið og framhald byggingarinnar. Enn liggja engar áætlanir fyrir um framhald þessarar byggingar og eins og hér hefur áður verið undirstrikað af minni hálfu tengist það gerð fjárlaga. Málið er í raun í þeirri stöðu sem fyrrverandi ríkisstjórn markaði því. Þannig háttar til að í apríl var auglýst forval hönnuða í fullnaðarhönnun á nýrri byggingu. Sá frestur sem gefinn var fyrir það stendur til 18. júlí og síðan er frestur til 20. ágúst eða þar um bil til að vinna úr þeim umsóknum sem berast og svo er gildistími forvalsumsókna níu mánuðir eða allt fram til loka maí á árinu 2014.

Málum er hins vegar þannig háttað að engar fjárheimildir eru til til þess að vinna áfram að málinu þegar forvalsfresturinn rennur út. Hvernig svo sem við horfum til þessa verks þarf með einum eða öðrum hætti að taka ákvarðanir í þessu efni tengdar fjárlögum íslenska ríkisins á árinu 2014. Það er óhjákvæmilegt vegna þess að engar fjárheimildir liggja fyrir. Því er ekkert hægt að sjá fyrir sér, nema til komi auknar heimildir í ágúst, að verkinu vindi fram eins og æskilegast væri. Ég geri ekki ráð fyrir að við tökum það mál inn í fjáraukalögin á þessu ári heldur verði að horfa til næsta árs ef menn ætla að halda þessu fram.

Þegar málið var kynnt í fjárlaganefnd í upphafi þessa árs gerðu menn ráð fyrir því að framkvæmdir mundu hefjast á árinu 2013. Það er fullljóst að þær munu ekki ganga upp á þessu ári og verkinu mun því seinka. Ákvörðunin sem þarf að taka lýtur að fjárveitingum og í þessu sambandi, sem snýr að spurningu tvö, er svarið: Nei, ekki er búið að taka ákvörðun um að hætta við forvalið og verður ekki gert.

Síðan er spurt hvenær rétti tíminn sé til að vinna að varanlegri lagfæringu á aðbúnaði sjúklinga og starfsmannaaðstöðu á Landspítalanum. Það er tengt fjórðu spurningunni sem snýr að ákvæði stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um íslenskt heilbrigðiskerfi og samkeppnishæfni þess við nágrannalöndin. Af því tilefni vil ég segja um ástandið í heilbrigðiskerfinu um þessar mundir að þar er viðvarandi hallarekstur á ótal stofnunum. Þær hafa gengið á allar fyrningar sínar og inneignir og við erum í bullandi vandræðum með að reka núverandi kerfi.

Áherslumál mitt númer eitt, tvö og þrjú er að vinna bug á þeim vanda sem við er að glíma í kerfinu í dag. Það snýst bæði um það fólk sem vinnur í íslenska heilbrigðiskerfinu og það fólk sem heilbrigðiskerfið á að þjónusta. Fyrr en við erum komin með þétt tak á því félagslega neti sem er í heilbrigðiskerfinu, þá fyrst þegar það er fengið, tel ég að við getum farið að hugsa alvarlega um steypu.

Ég óska þess því heitast af öllu að þingheimur allur standi saman um það verk að koma íslenska heilbrigðiskerfinu á fæturna aftur. Það gefur okkur þá færi á að horfa með bjartsýni og trú til nýrra tíma og gerir okkur kleift að endurnýja húsakostinn og reisa heilbrigðisþjónustuna úr þeim rústum sem hún stefnir í í dag. Heilbrigðisþjónustan er í fjárhagslegu svelti og þar er mörg verk að vinna. Ég vara við því að við ræðum þessi málefni af einhverri bjartsýni sem gefi tilefni til að ætla að við getum gengið í sjóði ríkisins og tekið þaðan einhverja tugi milljarða til að fara til stórra verka. Veruleikinn í kerfinu er því miður ekki sá.

Ég hef hins vegar fulla trú á því að við munum ná saman um það hvernig við komum heilbrigðisþjónustunni, sérstaklega á Landspítala – háskólasjúkrahúsi, í þann húsakost sem þarf, þann húsakost sem telst viðunandi og við gerum öll kröfu um.