142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

bygging nýs Landspítala.

[14:16]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessari umræðu um Landspítalann. Það er búið að ræða um þennan nýja mögulega Landspítala í allmörg ár eins og komið hefur fram í þeim tveimur ræðum sem þegar hafa verið haldnar hér. Þetta mál beið okkar sem komum til þings vorið 2009, ágætlega undirbúið að mörgu leyti, þvert á flokka, hafði átt langan aðdraganda, rætt í stjórnkerfinu, bæði hjá ríkinu og ekki síður hjá sveitarfélögum eins og borginni, og var eitt af fyrstu stóru málunum sem fjárlaganefnd tók til umfjöllunar og afgreiðslu á 138. löggjafarþingi, 2009–2010. Það er rétt að undirstrika þá samstöðu sem hefur verið um málið alla tíð, m.a. í fjárlaganefnd.

Við setningu laga 2010 um byggingu nýs Landspítala var samstaðan í nefndinni algjör, að undanskildum Framsóknarflokknum sem ákvað á þeim tíma að skilja sig frá öðrum stjórnmálaflokkum í umræðunni um byggingu nýs Landspítala. Hann hafði áður, m.a. undir forustu heilbrigðisráðherra Framsóknarflokksins mörg ár þar á undan, unnið að byggingu Landspítala. Á nefndaráliti vorið 2010 voru allir nefndarmenn fjárlaganefndar stuðningsmenn þessa verkefnis og skrifuðu undir það að undanskildum fjárlaganefndarmanni Framsóknarflokksins sem skilaði séráliti. Það sama gerðist núna í vor þegar þingið setti ný lög um Landspítalann og á grundvelli þeirra var síðan ráðist í forval sem hefur verið rætt. Allir fjárlaganefndarmenn voru sömuleiðis sammála því að styðja það frumvarp og greiddu því atkvæði, voru sameiginlega á nefndaráliti við afgreiðslu — að undanskildum þingmanni Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd. (Forseti hringir.)

Málið hlaut brautargengi með samþykki allra atkvæða fjárlaganefndarmanna í atkvæðagreiðslu, þar á meðal þriggja ráðherra Sjálfstæðisflokksins, þannig að ég tel málið ekki í neinni hættu heldur í ágætum farvegi og vonast til þess að hæstv. heilbrigðisráðherra og fyrrverandi fjárlaganefndarmaður sjái til þess að svo verði.

(Forseti (EKG): Forseti vill vekja athygli á því að enn er klukkan biluð og þess vegna kemur ekki viðvörunarljós í ræðupúlti Alþingis. Hins vegar geta þeir hv. þingmenn sem taka til máls í umræðunni fylgst með gangi tímans með því að fylgjast með klukku sem gengur engu að síður í ræðustólnum.)