143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

staða kvenna innan lögreglunnar.

[15:44]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Björt Ólafsdóttur sérstaklega fyrir að taka þetta mál upp hér á þingi enda mikilvægt mál sem ég held að við getum öll verið sammála um að við lítum alvarlegum augum.

Það er rétt að taka það fram sem kom reyndar fram í máli hv. þingmanns, að könnunin um vinnumenningu meðal starfandi lögreglumanna var gerð að frumkvæði ríkislögreglustjóra í samstarfi við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Ég held að sú staðreynd skipti máli. Það skiptir máli að frumkvæðið að þessu hafi komið frá lögreglunni sjálfri og að þeir sem þar fara fyrir og eru í stjórn átti sig á stöðunni.

Hv. þingmaður fór vel yfir tilgang könnunarinnar, sem var m.a. sá að skoða af hverju lögreglukonur eru nú svo fáar, því að þær eru fáar, aðeins 12,6% starfandi lögreglumanna eru konur þrátt fyrir, eins og hv. þingmaður benti á, að hlutfall þeirra af brautskráðum nemendum Lögregluskólans sé umtalsvert hærra. Þetta hlutfall starfandi lögreglukvenna, til þess að halda því lifandi og vakandi gagnvart okkur, er hærra í flestum löndum sem við berum okkur saman við. Þetta er ekki staðreynd sem öll lönd glíma við, við erum með mun lægra hlutfall en mörg lönd í kringum okkur. Þetta er líka alvarlegt í ljósi þess, sem hv. þingmaður nefndi einnig, að skýr vilji löggjafans liggur fyrir og hefur legið fyrir frá árinu 2002 þegar lögum var breytt, sem m.a. hafa það að markmiði að fjölga konum við lögreglustörf. Þess vegna er brottfall kvenna úr lögreglunni alvarlegt og hefur verið mikið áhyggjuefni í nokkur ár, m.a. hjá lögreglunni sjálfri. Það er ástæðan fyrir því að þetta er sérstaklega skoðað.

Það er líka margt annað, virðulegur forseti, sem kemur fram í skýrslunni sem vekur og á að vekja okkur öll til sérstakrar umhugsunar. Eitt er það sem við höfum nefnt hér, þ.e. brottfallið. Annað er að það virðist vera sem fáar konur af þessum litla hluta nái þeirri stöðu að vera í forustu innan lögreglunnar. Afar lágt hlutfall kvenna nær þeim árangri innan lögreglunnar. Síðan er ekki síður alvarlegt og reyndar afar alvarlegt að um 30% kvenna í lögreglunni telja sig vera þolendur kynferðislegrar áreitni, sem er auðvitað óþolandi og verður að vinna bug á.

Síðan eru það viðhorfin sem var komið hér inn á áðan, viðhorf yngstu kynslóðarinnar, þ.e. yngstu karlmannanna til kvenna í lögreglunni. Ég verð reyndar að viðurkenna það sem kona í stjórnmálum, hafandi tekið þátt í stjórnmálum ansi lengi, að þessi niðurstaða kom mér ekki sérstaklega á óvart. Mér finnst stundum í sambandi við viðhorf yngri karla til kvenna sem taka þátt í atvinnulífinu til jafns við karla að erfiðara sé að sannfæra unga karlmenn um að það sé eðlilegt og rétt en eldri karlmenn. Kannski er það í þessum málum eins og svo mörgum öðrum að það kallar á nokkurn þroska að átta sig á því að það er samfélaginu til góðs og heilla að við skiptum með okkur verkum með sanngjörnum hætti.

Allar þessar staðreyndir og staða kvenna innan löggæslunnar almennt eiga skilið fulla athygli æðstu manna innan lögreglunnar og þeirra sem fara með lögreglumál í landinu. Þar er ég, ráðherra málaflokksins, ekki undanskilin. Þess vegna mun ég leggja mitt af mörkum til þess að tryggja að brugðist verði við niðurstöðum skýrslunnar. Ríkislögreglustjóri hefur þegar kynnt hvernig embættið hyggst gera það markvisst. Sú vinna verður hafin strax og þegar er byrjað að skipa í starfshópa er lúta að því. Ég vil lýsa sérstakri ánægju með það hversu hratt var tekið á málinu og af hve miklu öryggi lögreglan ætli að takast á við málið enda er það mikilvægt. Sú vinna fer því í gang.

Ég vil einnig upplýsa þingheim um að ég hef rætt málið. Ráðuneytið hefur fengið kynningu á þessari stöðu og eins hef ég átt fund með konum innan lögreglunnar til að fara yfir þessa staðreynd, fékk tækifæri til að hitta þær fyrir helgi og mun síðan í lok vikunnar hitta ríkislögreglustjóra sérstaklega til þess að fara yfir málið og tryggja að það sé í eins góðum farvegi og mögulegt er.

Ég bendi þingheimi líka á það til upplýsingar að frammi fyrir svipuðum vanda og svipaðri skýrslu og svipaðri stöðu stóðu Svíar ekki alls fyrir löngu. Þeir tókust á við það verkefni með mjög afdráttarlausri aðgerðaáætlun til þess að tryggja að á þessu yrði unnið með öðrum hætti og þar er talið að náðst hafi góður árangur.

Ég hvet okkur öll til þess að vinna saman að þessu. Ég hvet lögregluna sérstaklega til þess og hef notað hvert það tækifæri sem ég hef fengið til að minna hana á mikilvægi þess. Ég minni þingmenn sem sitja í nefndum um það hvernig eigi að útdeila auknu fjármagni til lögreglunnar á að horfa sérstaklega til kvenna þegar kemur að viðbótarráðningum sem vonandi verða að veruleika á næsta ári. Ég veit að þannig tekst okkur í sameiningu að tryggja að konur og karlar gangi til þeirra verka sem lögreglufólk gengur til á hverjum degi og almenningur njóti þjónustu beggja kynja frá þeirri (Forseti hringir.) mikilvægu starfsstétt sem lögreglan er.