143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

staða kvenna innan lögreglunnar.

[15:52]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Björt Ólafsdóttur fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli. Það er rétt sem hér hefur komið fram að þetta er partur af miklu stærra viðfangsefni, þetta er partur af kynjakerfi sem er kvenfjandsamlegt. Þetta er enn ein birtingarmynd þess af mjög mörgum sem við sjáum því miður mjög víða í samfélaginu. Ég held að að hluta til endurspegli skýrslan bakslag. Ég held að hún endurspegli ekki bara vilja lögreglunnar til að skoða þessi mál af gagnrýni og ábyrgð, sem er mjög mikilvægur og ég fagna sérstaklega, heldur einnig þá staðreynd að það er ákveðið bakslag í samfélaginu sem endurspeglast í skýrslunni, að ungir karlar eru með fjandsamlegri viðhorf til kvenna en þeir eldri.

Það er eitthvað sem þyrfti að skoða betur. Eins og komið hefur fram í máli hæstv. ráðherra er mikill vilji til þess að taka þetta viðfangsefni föstum tökum og ég treysti hæstv. ráðherra til þess. En þetta er auðvitað miklu meira en áhyggjuefni, þetta er óþolandi, það er svo einfalt. Það er algerlega óþolandi staða sem upp er komin og ég tel að það þurfi meira en afstöðu framkvæmdarvaldsins í þessu efni. Það þarf eyrnamerkt fjármagn inn í þá aðgerðaáætlun sem hér er kynnt til sögunnar.

Ég heyri það á hæstv. ráðherra að hún telur að forgangsraða eigi fjármagninu að einhverju leyti í þágu þessarar aðgerðaáætlunar en ég held að það þurfi að tala miklu skýrar í þeim efnum. Talað er um að hér þurfi að koma á miklu öflugri og reglulegri fræðslu um jafnréttismál til stjórnenda og starfsfólks lögreglunnar, að það þurfi jafnréttisfulltrúa í fullt starf o.s.frv. Við þurfum að taka á þessu máli einmitt þar sem rót vandans liggur. Þetta er, eins og bent hefur verið á, hluti af miklu stærri mynd og það er gríðarlega mikilvægt að taka vel á því. Ég hvet fólk til að lesa þessa skýrslu og skoða sérstaklega beinar tilvitnanir í þær konur sem eru í raun rannsóknarefni í þessari rannsókn m.a. vegna þess að þær setningar sem þar koma fram eru þyngri en tárum taki og endurspegla stöðu þessara kvenna innan lögreglunnar.