143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

staða kvenna innan lögreglunnar.

[16:00]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka umræðuna sem er vel við hæfi í jafnréttisviku. Það er forvitnilegt að skoða þessa skýrslu með tilliti til þess að við erum að ræða um lögregluna sem nýtur hvað mest trausts allra stofnana í íslensku samfélagi þar sem 77% treysta lögreglunni. Það er líka forvitnilegt að skoða skýrsluna í samhengi við það að við erum nýbúin að fá þann úrskurð fimmta árið í röð að Ísland sé það land í heiminum þar sem jafnrétti er hvað mest. En við vitum af veikleikunum. Það er kynbundinn launamunur, sem er enn mikið vandamál hjá okkur, og kynbundið ofbeldi.

Því til viðbótar er kynskiptur vinnumarkaður líka mjög áberandi á Íslandi og það birtist meðal annars hjá lögreglunni þar sem ekki hefur tekist á undanförnum árum að breyta kynjahlutfallinu og lægra hlutfall kvenna er í lögreglunni hér en annars staðar.

Samkvæmt skýrslunni sem er til umfjöllunar, og það er athyglisvert, er vinnuumhverfið þeim konum sem eru í lögreglunni raunverulega fjandsamlegt og möguleikar á framgangi í starfi minni hjá þeim en körlunum.

Það er líka sláandi að einelti og kynferðisleg áreitni er mun algengari innan lögreglunnar en á öðrum stöðum. Það er því gríðarlega mikið verk að vinna og ánægjulegt að fram hefur komið í umræðunni að menn taki það mjög alvarlega og muni gera allt sem hægt er til að breyta því.

Ég sagði í upphafi að traust til lögreglunnar væri mikið og það er gríðarlega mikilvægt í samfélagi eins og okkar, vestrænu samfélagi, að traustið sé mikið. Þá er erfitt að sætta sig við að fá fullyrðingar um að í þessari stétt sé karllægur mórall byggður á gamaldags staðalímyndum um hlutverk kynja, að karlar í lögreglunni telji konur sér síðri til starfsins, þar vanti líkamlega burði o.s.frv. Það eru viðhorf sem maður hefur ástæðu til að óttast að smitist út í samfélagið ef þau eru hjá lögreglunni. Þeim mun mikilvægara er að við tökum á því strax, reynum að tryggja (Forseti hringir.) að lögreglan njóti áfram trausts en það getur hún eingöngu gert með því að vinna á þessum vandamálum innan eigin stéttar.