143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

almenn hegningarlög.

109. mál
[16:27]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég var sammála mörgum almennum viðhorfum sem komu fram hjá hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni um tjáningarfrelsi. Við eigum að hafa rétt til þess að tjá okkur. Ég er í hópi þeirra sem eru reiðubúnir til þess að íhuga og jafnvel staðfesta með atkvæði sínu skorður við tjáningarfrelsi á meðan það meiðir aðra. Ef það meiðir einhverja sérstaklega vegna þess hvernig þeir eru gerðir að eðli til af náttúrunnar hendi finnst mér það fullkomlega réttlætanlegt. Í þessu tilviki er um að ræða hóp sem er sérstakur, eins og ég reyndi að lýsa í ræðu minni, og hefur í gegnum aldirnar verið beinlínis útskúfaður. Honum hefur verið ýtt út á jaðar samfélaga vegna þess hvernig hann varð til, hvernig hann kom inn í heiminn.

Að þessu sögðu ítreka ég það að ég virði tjáningarfrelsi en ég er sammála þeim skorðum sem hér er verið að setja því. Í tilefni af þessari lærðu, heimspekilegu ræðu hv. þingmanns verð ég að viðurkenna að ég hef ekki nógu mikla greind til að skilja nákvæmlega hver afstaða hv. þingmanns til frumvarpsins er. Það er þó í eðli sínu mjög einfalt, það snýst um eitt orð. Hvernig mun hann greiða atkvæði þegar það kemur til atkvæða? Er hugsanlegt að hann greiði atkvæði gegn þessu frumvarpi? Er hugsanlegt að píratinn hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson muni ekki ljá atbeina sinn við það að skjóta skildi fyrir þennan hóp?