144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

jafnt aðgengi að internetinu.

28. mál
[18:41]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er bara jákvætt, ég segi allt jákvætt um það. En varðandi það að taka grunnnetið til baka, það er kannski ekki alveg lausnin. Eins og fram hefur komið eru sveitarfélög að fjárfesta og einkafélög, þetta eru orðnir stubbar úti um allt land.

Grunnnetið er að mestu leyti byggt upp á kopar og það er flókið verkefni og ég er ekki búinn að sjá að ríkið fari að taka tékkheftið fram og kaupa þetta. Ég held að lausnin sé frekar að fá fyrirtæki og fá aðila til að sameinast um þetta grunnnet. Hvernig það er gert veit ég ekki en ég held að það sé allra hagur og það sé fjarskiptafélögunum fyrir bestu ef þau gætu sameinast um grunnnetið þannig að hægt sé að klára þær hringtengingar sem eftir eru. Þær eru svo sem ekkert mjög margar svona í þéttbýlustu byggðunum. Ef þau sameinast um þetta grunnnet, neðsta lagið, þá stækkar samkeppnismarkaðurinn hjá þeim og þar geta þau keppt.

Ég held að það sé sama hvar í flokki menn standa, ég held að allir séu af vilja gerðir. En vandamálið er ekki mjög öflugur ríkissjóður. Því miður er það ekki þannig að ríkissjóður sé í stakk búinn til að klára þetta einn og sér. En ég er sannfærður um að það (Forseti hringir.) eru allir á því að reyna að taka höndum saman og byggja þetta kerfi eðlilega upp.