146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[15:19]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég ætla að fara nokkrum orðum um fjárlagafrumvarpið sem hér er til 2. umr. og nota líka tækifærið til að gera stuttlega grein fyrir helstu atriðum eins og þau horfa við okkur í Viðreisn. Það eru sannarlega ákveðin þáttaskil í íslensku efnahagslífi nú þegar þetta fjárlagafrumvarp er til afgreiðslu. Annars vegar horfum við upp á að eftir mörg mögur og aðhaldssöm ár í kjölfar slæmrar efnahagskreppu eru nú tækifæri til að auka í með batnandi hag ríkissjóðs. Hins vegar blasir sú sýn við að ef ekki er varlega farið gæti þetta fjárlagafrumvarp ýtt um of undir þenslu í þjóðfélaginu og þar, frú forseti, hefur ekki enn fennt í þau spor sem við viljum varast.

Áherslur okkar í Viðreisn eru í grófum dráttum þær að við teljum ytri aðstæður þannig að mikil þörf sé á aðhaldi í ríkisfjármálum. Þó viljum við skapa svigrúm til að bæta í ríkisútgjöld á nokkrum stöðum, fyrst og fremst í heilbrigðis- og menntamálum, í anda þess sem við lögðum áherslu á í aðdraganda kosninga.

Það er ljóst að það er víða kominn tími til fjárfestingar eftir mögur ár á hinum ýmsu sviðum þjóðfélagsins, í innviðauppbyggingu eins og mikið var rætt um í aðdraganda kosninga og það af öllum flokkum. Eins var það samdóma álit að þar þyrfti ekki síst að huga að heilbrigðiskerfinu okkar.

Það er margt jákvætt að segja um það ferli sem hér hefur verið unnið eftir og því verið lýst og gott að sjá skref í þá átt að huga að agaðri vinnubrögðum við vinnslu fjárlaga, langtímahugsun þar sem áherslan er á stöðugleika og hallalausan ríkisrekstur. En þrátt fyrir væntingar um ný vinnubrögð og þann ávinning sem af þeim má vænta stingur hér sem fyrr í augu hve gríðarlegan vaxtakostnað íslenska ríkið ber af skuldum sínum. Það hefur náðst eftirtektarverður árangur undanfarið í að greiða niður skuldir, en á sama tíma stöndum við enn frammi fyrir þeirri staðreynd að vaxtakostnaður íslenska ríkisins er sá hæsti í Evrópu, umtalsvert hærri en landa sem eru mun skuldugri en við erum í dag. Þótt skuldastaða ríkissjóðs sé orðin þokkaleg fara um 10% af öllum tekjum ríkisins í að greiða vexti af skuldum. Þetta misræmi milli skuldastöðu og afborgana hlýst af háum vöxtum sem íslenska ríkið, rétt eins og fyrirtæki og heimili í landinu, er dæmt til að greiða við núverandi aðstæður.

Það eru þannig ekki aðeins íslenskir neytendur sem gjalda fyrir háa vexti hér á landi með því að greiða fyrir heimili sín margfalt á við það sem gerist í nágrannalöndum okkar, íslenska ríkið er í sömu sporum varðandi lán sín og greiðslur af þeim. Og hverjir borga svo á endanum brúsann? Jú, það eru auðvitað íslenskur neytendur, t.d. í formi þess að minna en ella verður til af fjármagni í hina margumtöluðu og mikilvægu innviðauppbyggingu.

Frú forseti. Ég get ekki látið hjá líða að nefna sérstaklega þetta atriði sem lýtur að hinum gríðarlega vaxtakostnaði okkar, sem staðfestir hversu sárlega við Íslendingar þurfum á trúverðugri peningamálastefnu að halda með minni sveiflum í hagkerfinu og stöðugri gjaldmiðli. Það er óskandi að fyrir umræðu næstu fjárlaga að ári hafi eitthvað áunnist í þá veru. Með trúverðugri peningamálastefnu væri líka frekar á vetur setjandi fyrir ríkissjóð, fyrirtæki og einstaklinga og heimili með áætlanir um tekjur sínar og útgjöld. Ég tek sem dæmi fréttaflutning af þeim erfiðleikum sem styrking krónunnar veldur helstu útflutningsgreinum okkar. Til áréttingar langar mig að vitna í talsmann eins okkar umsvifamestu ferðaþjónustufyrirtækja í frétt um áhrif styrkingar krónunnar á fyrirtæki í ferðaþjónustu, með leyfi forseta:

„Við viljum auðvitað vera í ferðaþjónustu, en okkar aðalverkefni er í raun spákaupmennska, að reyna að sjá fyrir gjaldeyrisþróunina.“

Ég nefndi í upphafi og mig langar að koma á framfæri helstu sjónarmiðum Viðreisnar varðandi það stóra verkefni sem afgreiðsla þessa fjárlagafrumvarps er. Í fyrsta lagi má þar nefna varðandi útþenslu ríkisins að ef við lítum fram hjá stöðugleikaframlagi banka og leiðréttingunni, sem verða seint talin til reglulegra liða í fjárlagafrumvarpi, þá sést að aukning milli ára er 60 milljarðar kr., eða 36 milljarðar kr. umfram launa- og verðlagsþróun. Sú upphæð gefur okkur aukningu upp á 9% og að teknu tilliti til leiðréttingar vegna verðlags er aukningin tæp 7%. Fyrir utan árin illræmdu 2006–2009 var breytingin árið 1998–1999 á pari við þetta, eða um 6,5%. Því til viðbótar er verið að kynna hreina aukningu upp á tæpa 11 milljarða kr. inn í fjárlögin. Því til viðbótar er verið að setja um 2 milljarða kr. í samgöngumálum og heilbrigðismálum inn í fjáraukann.

Það er langt frá því ætlun mín að mótmæla þeirri viðbótaraukningu, enda tel ég að fjármagninu sé vel varið á þeim stöðum sem tilgreindir hafa verið. Ég vil hins vegar benda á mikilvægi þess að við gleymum okkur ekki við að búa til útgjaldamynstur sem ekki er hægt að standa við þegar harðnar á dalnum aftur. Stöðugleiki og sjálfbærni hljóta að vera okkur leiðarljós.

Við eigum alltaf að vanda okkur við fjárlagagerð. Nú er enn ríkari ástæða en oft áður til að stíga varlega til jarðar. Eins og margoft hefur komið fram er Alþingi í fyrsta skipti að vinna með fjárlög sem sett eru á grundvelli þeirrar ríkisfjármálaáætlunar til fimm ára sem ætlað er að tryggja langtímahugsun, stöðugleika og fyrirsjáanleika, ekki síst yfir stjórnarskipti.

Frú forseti. Í ljósi þessarar stöðu og þeirrar tímapressu sem við erum óneitanlega undir var lögð rík áhersla á það í fjárlaganefnd að breið samstaða næðist um afgreiðslu frumvarpsins úr nefnd. Þó að áherslur einstakra flokka séu ólíkar í þeim efnum er ánægjulegt að sjá að þær breytingartillögur sem eru til umræðu lúta aðallega að stórauknum útgjöldum frá því sem fyrst var lagt fram til heilbrigðis- og menntamála auk samgöngumála og löggæslumála. Viðreisn styður þær áherslubreytingar í frumvarpinu þó að breytingartillögur hefðu að okkar mati jafnframt mátt styðja við aðhald ríkisfjármála í ljósi stöðunnar í efnahagslífinu.

Útgjaldaaukningin sem lögð er fram í breytingartillögum við fjárlagafrumvarpið skiptist, eins og fram hefur komið, í grófum dráttum í 4,5 milljarða kr. til heilbrigðisþjónustunnar, einkum til sjúkrahúsþjónustu um land allt, í leiðir til að mæta fráflæðisvanda — sem ég verð að segja að er afskaplega ljótt orð, ekki síst þegar það er notað til að ræða þjónustu heilbrigðiskerfisins við aldrað fólk og langveikt, þetta var innskot, við reynum að breyta því — til tækjakaupa, bætingar í rekstrargrunn sjúkrahúsa, eflingar sjúkraflutninga og í viðhald bygginga Landspítala – háskólasjúkrahúss. Auk þessa sem hér er talið upp var tæpur 1 milljarður kr. veittur til heilbrigðismála almennt, þar af 700 millj. kr. til Landspítala – háskólasjúkrahúss í fjáraukalögum fyrir árið 2016.

Viðreisn styður þessar áherslur heils hugar og ég vil jafnframt árétta mikilvægi þess að uppbygging heilbrigðiskerfisins verði forgangsverkefni. Ég vil bæta því við að persónulega sakna ég þess að sjá ekki ákveðið fjármagn eyrnamerkt geðheilbrigðismálum barna og unglinga, en mér skilst að nefndarmönnum hafi þótt tíminn til að vinna tillögur þar að lútandi of skammur. Ég treysti því að málinu verði haldið vakandi og allt kapp verði lagt á að bregðast við þeim vanda sem sannarlega blasir við þar.

Menntamálin fá aukið fjármagn upp á 1,6 milljarða kr. Þar af fara 400 millj. kr. til framhaldsskólanna, einkum fyrir verkmenntun, og háskólastarfsemi og nýsköpun fá 1,2 milljarða kr.

Hér vil ég sérstaklega, virðulegur forseti, benda á að framlög til háskólanna eru í frumvarpinu lítið aukin á milli ára. Þrátt fyrir viðbótarframlag upp á 1,1 milljarð kr. er ljóst að styrkja þarf rekstrargrunn háskólanna frekar. Tillögur þar að lútandi er ekki að finna í núgildandi fjármálaáætlun til næstu fimm ára þótt vitað sé að framlög til háskólastigsins, mælt á hvern nemanda, séu mun lægri hér á landi en í þeim ríkjum sem við helst berum okkur saman við og yfir höfuð í þeim ríkjum sem í kringum okkur eru. Við í Viðreisn teljum brýnt að menn sammælist um að marka skýra stefnu til úrbótar í þessum málum. Núverandi staða er óásættanleg.

Loks er í breytingartillögum að finna 4,6 milljarða kr. aukningu til samgöngumála auk þeirra 900 millj. kr. sem gert er ráð fyrir í fjárauka. Þeim fjármunum er ætlað að fara í nýframkvæmdir en ekki síst í viðhald á legi og landi. Hér er ekki efast um mikilvægi viðbótarfjármögnunar í þessa málaflokka. Þá styðjum við í Viðreisn heils hugar 500 millj. kr. viðbótarfjármagn til löggæslu og landhelgisgæslu.

Virðulegi forseti. Sú útgjaldaaukning sem lögð er til í breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið rímar ágætlega við þær áherslur sem Viðreisn kynnti í aðdraganda kosninga. Jafnhliða tillögum um útgjaldaaukningu umfram fyrirliggjandi ríkisfjármálaáætlun kynntum við tillögur að fjármögnun og miðuðu þær tillögur að því að lýsa því hvernig ríkisfjármálin gætu litið út í lok kjörtímabilsins að því gefnu að Viðreisn kæmi áherslum sínum á framfæri í ríkisstjórn og yrði þar helst ráðandi. Eins og gangurinn hefur verið í stjórnarmyndunarviðræðum undanfarið er ekki útséð um það enn að svo geti orðið. Tími kraftaverka er jú að renna upp.

Að öllu gamni slepptu erum við í Viðreisn nokkuð sátt við þær breytingartillögur sem hér hafa verið kynntar. Útgjaldaukningin er á pari við áherslur okkar, eins og ég hef nefnt. Að einhverju leyti hefðum við viljað sjá forgangsröðunina aðra sem og fjármögnunarleiðir, en eins og nefnt hefur verið ítrekað er um að ræða samvinnuverkefni margra og um margt ólíkra flokka við sérstakar aðstæður. Sem slíkt er það býsna ágætt og full ástæða til að þakka nefndarfólki í fjárlaganefnd fyrir sína miklu og góðu vinnu.