146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[16:55]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fá að beina orðum mínum í hliðarsalinn. Ég veit að það tíðkast ekki að veita andsvör við jómfrúrræðum. Ég vona að hv. þm. Guðjón Brjánsson fyrirgefi mér þann óleik. Ég held reyndar að ég sé ekki að gera honum óleik. Við erum Akureyringar báðir tveir, ágætisfélagar á þeim stutta tíma sem við höfum unnið hér saman.

Hv. þingmaður minntist á geðheilbrigðismál. Ég hef orðið þess áskynja að í hans hópi eru geðheilbrigðismál sérstaklega mikilvæg. Strax á fyrsta degi þings var lögð fram þingsályktunartillaga, þar sem hv. þm. Guðjón Brjánsson var á meðal flutningsmanna, um geðheilbrigðisþjónustu í framhaldsskólum. Mér er málið nokkuð skylt af þeirri ástæðu að minn starfsferill undanfarin 18 ár hefur verið í íslenskum framhaldsskólum. Ég hef horft upp á allt of mörg efnileg ungmenni verða andlegum kvillum að bráð og hverfa frá námi. Það er þyngra en tárum taki að sjá á eftir efnilegu fólki.

Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann sjái fyrir sér að það gæti verið skynsamlegt að geðheilbrigðisstarfsmenn Landspítala – háskólasjúkrahúss væru skyldaðir (Forseti hringir.) til þess að sinna að hluta til einhverjum sínum skyldum í framhaldsskólum.