146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[17:15]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Til að byrja með vil ég taka undir með hv. þingmanni að vissulega eru þau nýju vinnubrögð, sem ég var að fagna, vissulega erum við að vinna þetta hratt. Við erum að vinna hérna fjárlög, ekki bara á styttri tíma en sennilega nokkurn tíma áður eða alla vega í áratugi heldur líka á nýjan hátt sem gerir vinnuna erfiðari. Það gerir að verkum að já, vissulega eru hlutirnir alveg örugglega ekki jafn skýrir og þeir mættu vera. Og eins og ég tók fram í ræðunni, þessi nýja aðferðafræði, að vinna fjárlög byggð á fjármálaáætlun sem er til að byrja með sú fyrsta sem ríkisstjórn hefur gert og þar af leiðandi ný vinnubrögð þegar fjármálaáætlunin sjálf er lögð fram, hvað þá vinnan að byggja fjárlög á slíkri aðferðafræði, við erum að gera það í fyrsta skipti líka og við erum að bregðast við því á þinginu á sérstaklega stuttum tíma. Ég vil bara taka undir að það væri auðveldara að hafa lengri tíma. Ég vil meina að tímamörkin fyrir okkur séu ekki falin í neinu samkomulagi um þinglok fyrir jól heldur eru tímamörkin fyrst og fremst áramót sem eru eftir örfáa daga, þannig að þrátt fyrir að við værum hér meira og minna fram að áramótum værum við að vinna hlutina miklu hraðar og á styttri tíma en venjulega.

Varðandi seinni hluta spurningarinnar, um fjárframlög til Landspítalans – háskólasjúkrahúss, verð ég að viðurkenna að ég sit ekki í fjárlaganefnd og geri mér fulla grein fyrir að úthlutanir til spítalans eru naumari en hefur verið talað um að sé þörf á. En þó hef ég ekki annað en þau orð fulltrúa í (Forseti hringir.) fjárlaganefnd, að það sem verið er að leggja til, sérstaklega með viðbótinni, eigi að nægja í það minnsta til að halda í horfinu.