149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:33]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni góð andsvör. Ég byrja á að svara fyrstu spurningunni hans: Nei, hugmyndin er ekki að tekið verði upp tvöfalt kerfi í þeim skilningi að hluti fari á markað, það er a.m.k. ekki hugmynd Viðreisnar, heldur að núverandi gjaldtöku verði þá hætt og þetta komi í staðinn. (Gripið fram í.) Nei, eins og ég sagði áðan og hef sagt áður, þetta eru skrefin. Þetta er okkar hugmyndafræði. Þetta er sú lausn sem við leggjum til. Meira að segja í mínum villtustu draumum um móttökur hér í salnum myndi ég ekki leggja til að þetta yrði gert í einu vetfangi heldur þyrfti aðlögun. Hitt er samt umræðunnar virði.

Ég deili samþjöppunaráhyggjunum en reynsla núverandi kerfis sýnir að það er mjög erfitt að ráða við þetta. Ég veit ekki betur en að hönnuður og höfundar núverandi kerfis hafi haft áhyggjur af samþjöppun í upphafi. Og hver er staðan núna? Hún er ekki bara mikil, hún er vaxandi eins og nýjustu fréttir benda til. Ég er sammála, merkilegt nokk, hv. þingmanni um að markaðslausnin óheft myndi ekki aðstoða okkur við að draga úr þeirri samþjöppun sem nú er í gangi en við höfum ákveðnar leiðir, það er hægt að stíga inn í svona útboð í smærri skrefum og flokka þau niður. Aftur komum við inn á það. Það yrði þá mögulega á kostnað hámörkunar verðsins sem fengist fyrir, en það er rétt og eðlilegt að gera ef það er matið að virðið kæmi inn annars staðar, t.d. í því að draga úr hraða samþjöppunar. Samþjöppunin er í gangi og kemur hugmyndum Viðreisnar um breytta gjaldtöku ekkert við.