149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:53]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hér erum við að tala um að það sé verið að borga leyfi til að nýta sér sameiginlega auðlind þjóðarinnar. Hér er ekki verið að tala um einhverja kalda hönd að hrifsa frá einhverjum. Þjóðin á þessa auðlind. Sjávarútvegsfyrirtækin eiga ekki þessa auðlind. Það liggur fyrir í lögum.

Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að hið svokallaða veiðileyfagjald eigi að mæta m.a. þeim kostnaði sem ríkið verður fyrir við að þjónusta geirann. Seinna kemur fram í frumvarpinu að sá kostnaður sé um 5 milljarðar. Heildarveiðileyfagjald var 7 milljarðar. Það þýðir að þegar við erum búin að dekka þann kostnað sem ríkið verður fyrir bara við að þjónusta greinina eru það 2 milljarðar. Það eru 2 milljarðar sem þessi ríkisstjórn telur réttlátt að þjóðin fái í hlutdeild sinni í þessari lykilauðlind landsmanna. Ég trúi ekki að hv. þingmaður telji að 2 milljarðar sem er u.þ.b. tvöfalt hærra en það sem við innheimtum í umferðarsektum sé sanngjarnt gjald.