149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[15:02]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við höfum oft rætt um hlut byggðarlaga í veiðigjaldi. Í þessu frumvarpi er í sjálfu sér ekki á nokkurn hátt fengist við það. Veruleikinn er, eins og ég veit að hv. þingmaður kann vel, að t.d. í okkar kjördæmi þar sem við störfum báðir fyrir Norðvesturkjördæmi eru greidd veiðigjöld úr einu sveitarfélagi. Kannski má gagnrýna mig fyrir að fara með tölur og hafa þær ekki alveg upp á krónu réttar, en 300–400 milljónir eru t.d. greiddar úr Grundarfirði sem eru nánast eins og útsvarstekjur bæjarins. Það er bara önnur umræða og mikilvæg hvort byggðarlögin eigi að njóta hlutar í veiðigjöldum sem við tökum ekki við þessa umræðu, en sú umræða lifir áfram.