149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[15:10]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Takk fyrir það, herra forseti. Ekki vil ég nein hornkerling vera. Það er gott að fá að taka þátt í þessari umræðu um veiðigjöldin. Okkur tókst ekki að fara af stað með þau í vor, þau komu seint fram, þau veiðigjöld sem þá voru til umræðu. Nú hefur unnist tími til að leggja vinnu í nýtt frumvarp. Eftir því sem ég hef haft tækifæri til að skoða það frumvarp sýnist mér að þar sé verið að nálgast afkomutenginguna mjög mikið. Það er nú það sem hefur verið reynt að gera í rauntíma alveg frá árinu 2012 þegar veiðigjöldin voru endurbætt — þau voru til staðar áður, en þá urðu þetta alvörutekjur, varð að auðlindagjaldi þjóðarinnar, það sem lagt var á 2012. Ég legg því mikla áherslu á að við vöndum okkur vel í vinnu atvinnuveganefndar við að skoða þá formúlu sem liggur að baki þessum veiðigjöldum, hvort hún haldi og hvort við séum komin eins nálægt því og hægt er að afkomutengja veiðigjöld í rauntíma, sem ég held að allir flokkar hafi kallað eftir.

Mikið er rætt um sjávarútveginn og afkomuna þar. Afkoman þar hefur vissulega gengið í sveiflum. Útflutningsverð á aflaverðmætum og gengi krónunnar ræður þar miklu um. Ég sat sjávarútvegsdag í Hörpu í gærmorgun. Þar var kynning hjá Deloitte á stöðu sjávarútvegsfyrirtækja. Þar kom fram, sem er auðvitað mjög ánægjulegt, að sjávarútvegurinn hefur bætt eiginfjárstöðu um 341 milljarð og greinin — þá erum við að tala um meðaltal í greininni — hefur greitt sér út 86 milljarða í arð og fjárfest fyrir 95 milljarða á örfáum árum. Staða sjávarútvegsfyrirtækja hefur batnað um 421 milljarð á tæpum áratug og eiginfjárstaðan er jákvæð um 262 milljarða en var neikvæð árið 2008 um 421 milljarð.

Þetta skiptir máli því að sjávarútvegur er burðarás í efnahag landsmanna þó að ferðaþjónustan hafi skotist upp fyrir varðandi útflutningsverðmæti.

Þess vegna segi ég: Ef við erum búin að nálgast þessa afkomutengingu, að leggja á veiðigjöld samkvæmt afkomu fyrirtækjanna, þá erum við komin á góðan stað með að ná rentunni til þjóðarinnar. Ef þetta frumvarp um veiðigjöld hefði verið í gildi síðustu tíu ár hefði þjóðin verið að fá hálfum milljarði meira til sín en verið hefur þessi síðustu tíu ár. Það finnst mér segja ansi mikið um það að við séum með gott frumvarp um veiðigjöld í höndunum. Þá verða menn að horfast í augu við það að greiða til þjóðarinnar eftir hagnaði hverju sinni og taka sveiflur upp á við og niður á við eftir afkomu greinarinnar.

Þessi tenging við ríkisskattstjóra — það var líka eitt sem var verið að reyna að nálgast þegar veiðigjöldin voru lögð fram 2012. En nú loksins erum við komin á þann stað að byggt er á upplýsingum frá ríkisskattstjóra sem ég tel vera mjög mikilvægt.

Það kom líka fram á þessum sjávarútvegsdegi, og margt var þar fróðlegt að hlusta á, að úthlutað aflamark til lögaðila hefur dregist gífurlega saman á undanförnum árum. Hvað þýðir það? Það þýðir samþjöppun í greininni. Hvar er sú samþjöppun? Hún er hjá minni og meðalstóru útgerðunum. Þess vegna finnst mér allt tal um uppboð og markaðsleiðir vera salt í þennan veruleika, við erum að berjast við að standa vörð um fjölbreytt útgerðarform í landinu. Fjölbreytt útgerðarform skiptir landsbyggðirnar allar mjög miklu máli. Við munum ekki upplifa þann tíma aftur að skuttogari sé í hverjum firði, það verður ekki. En litlar og meðalstórar útgerðir í minni sjávarbyggðum geta skipt sköpum hvað varðar burðarás þeirra byggða og efnahag í þeim samfélögum. Margt fleira þarf líka að vera til í fjölbreyttara atvinnulífi. En þetta skiptir þessar minni byggðir mjög miklu máli. Þess vegna get ég ekki sett samasemmerki við afkomu 10 eða 20 stærstu fyrirtækja í greininni og þeirra minni, að tekið sé meðaltal af afkomu allra. Það verður að reyna að horfa til þess hvernig afkoma þeirra sem eru minni er. Það er hægt.

Eins og ég skil það eru þessir útgerðarflokkar skilgreindir hjá Hagstofunni og hægt að fletta upp afkomu þeirra sem eru með 30 tonna útgerðir og minni og sjá að hún er allt önnur en þeirra stærstu. Af hverju ræðst það? Er það út af því að þessir litlu eiga engan tilverurétt, að þeir reki sín fyrirtæki svona illa og eigi bara ekkert að vera að stunda útgerð yfir höfuð? Nei, ég tel svo ekki vera. Þeir búa bara við allt annað rekstrarumhverfi. Þessar 10 til 20 útgerðir sem eru komnar með yfir 80–90% allra úthlutaðra aflaheimilda til sín njóta hagræðingar og allt annarrar stöðu. Þær eru með keðju í markaðsaukandi sölu, sölustarf erlendis, markaðsstarf erlendis, með keðjur varðandi sín fyrirtæki sem afla þeim aukinna tekna. Þessi litlu útgerðarfyrirtæki eru bara flest að stunda fiskveiðar og setja annaðhvort fiskinn á markað eða beint í viðkomandi vinnslu, eru ekki með neinar keðjur sem auka hag þeirra og ekki með þá rekstrarhagkvæmni sem fylgir stórútgerðum sem eru með allt annað lánstraust, eru búnar að styrkja sig í eigin fé og byggja sig upp með allt öðrum hætti.

Menn eru, held ég, sammála um það í þessum þingsal að við viljum fjölbreytt útgerðarform. Ekki er þar með sagt að einhver útgerð sé óhagkvæm þó að hún sé minni. Á hvern einstakling sem vinnur við slíka útgerð og afleidd störf — miðað við þær aflaheimildir sem þar liggja undir — er það jafnvel meiri verðmætasköpun en er á einhverjum frystitogara. Það er bara þannig. Það styrkir þessar byggðir mjög mikið.

Greinin sjálf hefur sýnt fram á að hún er að gera góða hluti, hún er að stunda vistvænar veiðar. Hún er líka að gera góða hluti varðandi kolefnisjöfnun og annað því um líkt, dagróðrarbátar menga ekki eins mikið og þessi stóru frystiskip. Ýmislegt mætti draga fram í þessum efnum. Þeir sem tala fyrir einstaklinginn sem ég veit að margir tala fyrir líka — oftar en ekki er hægt að byggja upp fyrirtæki á forsendum einstaklings og fjölskyldu sem hentar mjög vel í fámennari byggðarlögum.

Ég vil skoða þetta varðandi þessar litlu og meðalstóru útgerðir í atvinnuveganefnd, hvort hægt sé að mæta þeim sjónarmiðum sem strax hafa komið fram um að menn vilji greiða veiðigjöld í samræmi við afkomu þeirrar tegundar af útgerð. Ég held að það sé hægt. Við þurfum bara að skoða það mjög vel.

Svo er annað sem hefur líka verið til umræðu, það er hve margir eru að leigja frá sér aflaheimildir sem fá aflaheimildir í dag. Það er ákveðið áhyggjuefni, það breyttist fyrir einhverju, að þeir sem leigja af öðrum borga núna veiðigjaldið. Áður var það þannig að sá sem fékk úthlutaðar aflaheimildir greiddi veiðigjald. Þessu er breytt. Nú eru hinir svokölluðu leiguliðar að bæta á sig — ekki nóg með að þeir þurfi að leigja af öðrum á háu verði heldur þurfa þeir líka að borga veiðigjöld. Mér finnst að þetta sé eitthvað sem mætti skoða í þessari vinnu í nefndinni, því að þetta finnst mér ekki sanngjarnt.

Heilt yfir tel ég að við séum á réttri leið með frumvarpinu. Ég tek undir það með hv. þm. Haraldi Benediktssyni að ég hef miklar áhyggjur af öllum þessum litlu og meðalstóru útgerðum sem hafa verið að fá á sig á þessu fiskveiðiári, eða síðasta, frá 1. september 2017 til 1. september nú í haust, mjög miklar hækkanir og sumar allt upp í 200–300% þó að meðaltalið sé kannski 130% eða svo. Sumar hafa einfaldlega ákveðið að reyna að þrauka, aðrar hafa hætt. Við megum ekki við þessu, við getum ekki horft upp á þetta, í þeim brothættu samfélögum sem eru vítt og breitt um landið.

Er hægt að mæta þessu ári með einhverjum hætti? Eða getum við gert það með því að taka á þessum persónuafslætti og styrkja hann fyrir þessi litlu og meðalstóru fyrirtæki í þessu frumvarpi og horfa til framtíðar? Það á eftir að koma í ljós hvernig við skoðum það í þessu samhengi. En ég tek undir með hv. þm. Haraldi Benediktssyni að þetta er verkefni sem er mjög brýnt að skoða í þessu samhengi, hvort sem við reynum að mæta því í álagningu næsta árs eða taka tillit til þessarar hækkunar á síðasta ári.

Varðandi þann mikla arð sem hefur vissulega verið greiddur út úr þessum stóru sjávarútvegsfyrirtækjum spyr almenningur sig eðlilega af hverju þau eigi ekki að greiða miklu hærri veiðigjöld en raun ber vitni fyrst þau geta greitt út svona mikinn arð. Mér finnst að við þurfum að skoða það út frá skattlagningu á arð. Það verður að horfa á það þeim augum, því að við getum ekki gert það með veiðigjöldunum nema við ætlum algjörlega að rústa þessum litlu og meðalstóru útgerðum. Ég held að það sé ekki meiningin hjá neinum.

Veiðigjöld hafa verið frekar fjandsamleg fyrir þessar litlu byggðir. En stóru fyrirtækin hafa vel ráðið við þau. Þetta hefur komið fram hjá auðlindasérfræðingum í umræðum í atvinnuveganefnd þegar við höfum verið að fjalla um veiðigjöld í gegnum árin. Ég er ekkert feimin við að segja að við þurfum að taka þessi litlu og meðalstóru fyrirtæki út fyrir sviga. Ef ég væri forstjóri Granda væri ég mjög glöð með að fá þetta frumvarp eins og það lítur út. Því miður heyrast aðrar raddir úr þeim geira, frá stórfyrirtækjunum, en ég held að menn ættu að skoða frumvarpið vel (Forseti hringir.) og sjá að mjög vel er farið að því að afkomutengja veiðigjöld sem ég held að sé allra hagur.