149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[15:33]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi það að þeir sem leigja veiðiheimildir þurfi líka að greiða af þeim veiðigjöldin en ekki sá sem hefur aflamarkið á sinni könnu — mér finnst þurfa að skoða það. Ég þori ekki alveg að fara með það hvort það falli undir þetta frumvarp eða hvort annað mál þurfi til þess en ég held að mikilsvert sé að skoða það og þá í samhengi við þetta.

Samfélagsleg ábyrgð stjórnvalda er mikil og veiðigjöld eru ekkert náttúrulögmál. Þau eru líka ákvörðun stjórnvalda. Það getur verið ákvörðun stjórnvalda að varðveita fjölbreytileika í útgerðarmynstri og styðja við útgerð í minni sjávarþorpum sem hafa farið halloka með því að hafa veiðigjöld þrepaskipt. Arðurinn til þjóðarinnar er líka í því formi að það sé byggð í þessum litlu samfélögum. Það er líka hluti af því að arðurinn skili sér til þjóðarinnar. Það er ekki eins og þessi litlu samfélög vítt og breitt um landið hafi ekki borgað mikið í gjaldeyristekjur á hvern einstakling í gegnum síðustu tugi ára.

Það væri gaman að fá útreikning á því hve mikil gjaldeyrissköpun hefur orðið á hvern einstakling í þessum litlu sjávarþorpum vítt og breitt um landið. Veiðigjald má aldrei verða til þess að beygja þessar byggðir niður. Það er nóg, eins og var nefnt hér áðan, að berjast við náttúruna og náttúruöflin þegar þau láta til sín taka, en veiðigjöldin eiga að vera sanngjörn, eiga að miðast við afkomu og eiga að horfa til mismunandi útgerðarforma og stærðarhagkvæmni þeirra (Forseti hringir.) stóru og sterku fyrirtækja sem græða sem betur fer, en arðurinn á líka að skila sér þar í formi veiðigjalda og arðs til þjóðarinnar gegnum skattlagningu.