149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[15:35]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Herra forseti. Ég er mjög andvígur íþyngjandi skattlagningu, ofursköttum, og gildir þá einu hvort um er að ræða veiðigjöld eins og eru til umræðu eða aðra skatta ríkisins, hins opinbera, sem leggjast á einstaklinga eða fyrirtæki. Ég er þeirrar skoðunar að há veiðigjöld geri hreinlega mikið ógagn en lítið gagn, dragi úr efnahagslegum þrótti landsins og leiði þar með til lakari lífskjara fyrir almenning allan.

Áður en ég fer að ræða frumvarpið sem slíkt ætla ég að hafa þennan inngang örlítið lengri og útskýra þetta aðeins nánar. Það sem há veiðigjöld gera er að skerða mjög samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs á alþjóðlegum vettvangi. Þetta er gríðarlega stórt atriði. 98% af öllum lönduðum afla á Íslandi og fiskafurðum eru seld á erlendum mörkuðum. Íslenski sjávarútvegurinn á í mjög harðri samkeppni, ekki aðeins við sambærilegar fiskveiðiþjóðir í nágrenni okkar um þorsk og aðrar botnfiskstegundir heldur í auknum mæli um eldisfisk eins og tilapíu, lax eða aðra fiska sem hægt er að nefna í því samhengi. Og ekki bara það, við erum líka í harðri samkeppni um aðrar staðgönguvörur sem mannfólkið í þessum heimi leggur sér til munns.

Það sem há veiðigjöld gera einnig er að draga mjög úr getu greinarinnar til að fjárfesta. Af hverju skiptir það máli? Jú, það er í gegnum fjárfestingar sem verður framþróun, sem næst fram aukin verðmætasköpun úr þeirri takmörkuðu auðlind sem við veiðum úr og þar með líka nýsköpunarstarf til að ná meiri framleiðni. Það er ekki gott þegar dregið er úr fjárfestingum.

Það eru önnur atriði sem hafa mjög skaðleg áhrif, ekki síst í því samhengi hvernig há veiðigjöld veikja sjávarbyggðir landsins, veikja viðnámsþrótt þeirra byggða til að standa af sér ýmsar sveiflur sem eiga sér stað í því náttúrulega umhverfi sem auðlindanýtingin er. Þau geta leitt til þess að einyrkjar, þeir sem hafa minni tækifæri til að bregðast við slíkum sveiflum, standi mjög höllum fæti og verði undir. Mjög há veiðigjöld geta því leitt til einsleitni, þau leiða til samþjöppunar og á endanum, þar sem dregið er úr fjölbreytileika atvinnuvegarins, kemur það þjóðinni verr.

Í því samhengi er líka gott þegar við förum inn í umræðuna og tökum þetta frumvarp til skoðunar í þinginu að átta okkur á því að íslenskur sjávarútvegur greiðir alveg gríðarlega háar fjárhæðir til íslenska samfélagsins og ekki bara í formi veiðigjalda. Af öðrum beinum sköttum blasir við að nefna fyrirtækjaskatt, það er tryggingagjald og önnur gjöld sem leggjast á greinina eins og aflagjald, stimpilgjald. Þetta eru áhrifin sem greinin hefur með þeim verðmætu störfum sem eru sköpuð sem og önnur afleidd áhrif sem hafa mikla þýðingu fyrir íslenskt efnahagslíf.

Við sjáum um þessar mundir að afkoma sjávarútvegsins versnar og fer hratt versnandi. Við sáum það í skýrslu frá Deloitte á sjávarútvegsdeginum í gær að tekjur á árinu 2017 drógust saman um allt að 10% og höfðu þá dregist saman um 9% frá árinu þar á undan. Framlegðin í greininni er á leiðinni niður og hagnaðurinn sömuleiðis.

Það er mjög alvarlegt mál. Þetta skiptir ekki einungis máli út frá því hvaða krónutölu ríkissjóður og ríkið ætla sér að slíta út úr greininni í formi veiðigjalda heldur mun það hafa aðrar og víðtækari afleiðingar, því miður. Það sem hið opinbera getur hins vegar gert þegar um er að ræða versnandi ytri skilyrði eins og á við í sjávarútveginum er að stilla gjaldtöku í hóf, hafa álögurnar sanngjarnar og í takt við afkomu greinarinnar. Það skiptir öllu máli.

Ef ég kem mér að meginefni frumvarpsins er aðalatriðið að bregðast við þeim ágalla sem er á kerfinu. Kerfið sem við búum við í dag er mjög gallað og reyndar hafa allar þær aðferðir sem notaðar hafa verið við álagningu veiðigjalda verið mjög gallaðar. En kerfið sem við búum við í dag er alveg einstaklega óheppilegt út af þeirri tímatöf sem verður frá því að niðurstaða liggur fyrir um afkomu greinarinnar, tekin saman af Hagstofunni í skýrslu um haf, veiðar og vinnslu, sem fer áfram til veiðigjaldanefndar sem gerir tillögu til ráðherra um álagningu veiðigjalds sem er yfir tveggja ára tíma frá þeirri afkomu sem lögð er til viðmiðunar. Þetta er mjög óheppilegt fyrirkomulag og það er fagnaðarefni að í frumvarpi hæstv. sjávarútvegsráðherra sé fundin leið til að laga þann ágalla, sníða hann af kerfinu. Þetta er meginatriðið og skiptir miklu.

Annað atriði er, eins og ég rakti áðan um hvernig veiðigjöld eru lögð á, að koma framkvæmdinni í fastari skorður, traustari skorður, gera hana skilvirkari og hætta með kerfið sem við erum með núna sem er frekar óskýrt hvernig nákvæmlega á sér stað. Með því að treysta stjórnsýsluna á þann hátt sem lagt er til í frumvarpinu fáum við betri gögn frá gjaldskyldum aðilum, frá útgerðaraðilunum, sem ríkisskattstjóri, sem verður aðalstofnunin á vegum ríkisins við framkvæmd álagningarinnar, getur villuprófað og sannreynt þær upplýsingar sem berast samhliða þeim skattframtölum sem er skilað. Það tel ég vera mikla lagabót.

Við umræðuna var komið inn á að með því að skilja að veiðar og vinnslu, sem er önnur góð breyting sem lögð er til í frumvarpinu, svo að veiðigjald verði eingöngu lagt þannig á að horft verði á veiðarnar en ekki vinnsluna, sé sú hætta fyrir hendi að samþætt útgerðarfyrirtæki geti eða hafi þann freistnivanda fyrir framan sig að færa til tekjur og kostnað. En það er einmitt með því að koma framkvæmd álagningarinnar fyrir í stjórnsýslunni á betri hátt, hjá ríkisskattstjóra, sem það verður hreinlega lögbrot að gefa upp villandi upplýsingar, rétt eins og gildir í skattkerfinu öllu. Ríkisskattstjóri mun hafa tæki og tól til að sannreyna, villuprófa þær upplýsingar sem berast frá útgerðaraðilum.

Ég tel að heilt yfir sé frumvarpið mjög til bóta. Það eru aðrir þættir þarna sem verið er að laga. Það er verið að einfalda útreikninga veiðigjalds með því að undanskilja tegundir sem eru utan kvóta frá veiðigjaldi. Það tel ég mjög til bóta

Til að draga þetta saman hefur verið lagt til grundvallar við gerð frumvarpsins, að mér sýnist, meginatriði sem er að finna í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur þar sem segir, með leyfi herra forseta:

„Við endurskoðun laga um veiðigjöld þarf að hafa það meginmarkmið að tryggja þjóðinni réttlátan hlut af arðsemi auðlindarinnar og að þau taki tillit til afkomu.“

Enn fremur segir, herra forseti, með leyfi:

„Tryggja þarf samkeppnishæfni sjávarútvegs á alþjóðlegum mörkuðum og að hann geti áfram staðið að nýsköpun og vöruþróun til að auka virði afurðanna.“

Herra forseti. Þessi tvö atriði eru lykilþættirnir að baki frumvarpinu. Við viljum viðhalda öflugum, sterkum sjávarútvegi sem er samkeppnisfær á alþjóðlegum vettvangi. Það er þannig sem við aukum lífsgæði almennings alls á Íslandi. Það er þannig sem við getum treyst á einkamarkaðinn, treyst á aðila til að sækja áfram fram við aukna verðmætasköpun sem kemur öllum til góða.

Með því að stíga það skref sem lagt er til í frumvarpinu, með því að breyta stjórnsýslunni á þann veg sem ég hef farið yfir, og með breyttri aðferðafræði með hliðsjón af því hvaða gögn eru lögð til grundvallar er sá möguleiki nær en áður að til framtíðar verði skoðað hvort rétt sé að leggja veiðigjöld þannig á útgerðaraðila að tekið sé tillit til afkomu hvers og eins, að um sé að ræða sérstakan fyrirtækjaskatt á afkomuna ef svo ber undir. Það er atriði sem var skoðað, hefur verið skoðað og hefur verið rætt. Með því að stíga það skref sem lagt er til í frumvarpinu er það nær en við núverandi kerfi.

Það er atriði í því sambandi sem við skulum hafa í huga til að svara þeirri spurningu af hverju sérstakt auðlindagjald, sérstakt veiðigjald er lagt á sjávarútveginn einan af þeim sem nýta auðlindir landsins. Það er það sem við þurfum að átta okkur á þegar brugðist er við réttmætri gagnrýni á þetta fyrirkomulag, á veiðigjöldin, þegar sagt er að þetta sé landsbyggðarskattur. Eðlilega spyrja útgerðarmenn sig og íbúar í sjávarbyggðum landsins: Af hverju er eingöngu lagður skattur á þessa auðlindanýtingu en ekki aðra? Það tel ég réttmæta spurningu.

Fram kom í umræðunni hver staða lítilla og meðalstórra fyrirtækja er. Menn hafa lýst yfir áhyggjum af því að staða þeirra sé slæm en ekki þurfi að hafa áhyggjur af stórútgerðinni. Ég er þeirrar skoðunar að það beri að hafa áhyggjur af öllum fyrirtækjum, að engin ástæða sé til þess í því samhengi að flokka fyrirtækin endilega eftir stærð þeirra. Það er áhyggjuefni ef öll fyrirtæki standa höllum fæti. Miðað við þær greiningar sem eru að koma fram, m.a. frá Deloitte-endurskoðunarskrifstofu, eru jafnvel stærri fyrirtækin sem sýna fram á verri afkomu.

Herra forseti. Þetta er atriði sem við þurfum að skoða sérstaklega, sem atvinnuveganefnd þarf að skoða þegar og ef vilji er til þess að útfæra sérstakar reglur sem eru ívilnandi eða eftir atvikum íþyngjandi eftir útgerðarflokkum. Við skulum taka þá umræðu mjög alvarlega og taka mjög alvarlega þær ábendingar sem er að finna frá ýmsum aðilum um versnandi hag fyrirtækjanna, útgerðaraðila í þessu landi. Það er alveg sérstaklega þörf á því við meðferð málsins að skoða áhrif veiðigjalds á byggðir landsins. Það hlýtur að koma til sérstakrar skoðunar. Það hlýtur m.a. að koma til skoðunar greining sem ég veit ekki betur en að Byggðastofnun hafi unnið eða geti unnið um stöðu byggðanna í því samhengi. Það tel ég vera atriði sem atvinnuveganefnd þyrfti að skoða.