149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[15:54]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér er ljúft og skylt að reyna að eyða einhverjum misskilningi í þessari umræðu þegar spurt er hvort veiðigjald sé gjald eða skattur. Það er bara tvennt sem kemur til greina, þegar við ræðum álögur hins opinbera, annaðhvort er um að ræða þjónustugjald, sem um gilda ákveðnar reglur, og ef ekki er um að ræða þjónustugjald er það skattur sé horft til ákvæða stjórnarskrárinnar.

Það má kalla það hvað sem er, það má kalla ófreskjuna hvað sem er, klæða hana í hvaða búning sem mönnum dettur í hug, en samkvæmt íslenskum lögum og stjórnskipunarrétti er þetta alltaf skattur. Það er meginatriði í þessu máli. Það sem löggjafinn verður að gera, samkvæmt ákvæði stjórnarskrárinnar, er að afmarka með almennum hætti hvernig eigi að leggja slíkan skatt á með lögum. Það verður þá að ákveða hver sé gjaldstofninn, hvernig hann verði fundinn; ákveða hverjir séu gjaldendurnir hverju sinni og hafa til hliðsjónar meginreglur um jafnræði milli aðila, meginreglur um bann við afturvirkni laga og svo verður að ákveða gjaldhlutfallið með lögum. Þetta er skattur.

Auðlindagjald er ekkert annað en skattur. Það má kalla það hvað sem er. Það má kalla það landsbyggðarskatt, kalla það auðlindaskatt, auðlindagjald. En þetta er ávallt skattur. Það er meginatriði í þessu máli og óþarfi, held ég, að fara eitthvað nánar út í þetta.

Spurt er hvort einhver störf séu verðmætari en önnur. Það síðasta sem ég ætla að gera hér í þessum ræðustól er að leggja dóm á það hvað sé verðmætt og hvað ekki. Ég hef engar forsendur til að gera það.