149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:23]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka þessa umræðu um frumvarp til laga um veiðigjald. Að mörgu leyti er búið að vinna góða vinnu í ráðuneytinu. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir það og hans góða starfsfólki sem hefur lagt þar hönd á plóg. Mér finnst það frumvarp sem hér er lagt fram vera mun betra en það sem áður hefur verið í boði. Það má alltaf deila um leiðirnar, hvernig við ætlum að innheimta gjald fyrir afnot af auðlind, sem við erum sammála um að sé gert og eigi að vera réttlátt gjald, bæði gagnvart útgerð og sjómönnum og ekki síður gagnvart eiganda auðlindarinnar, þjóðinni.

Það er auðvitað svo, eins og kemur fram í þessari umræðu, að það vilja alltaf allir leggja skatta á aðra en sjálfa sig. Hér í þessum sal hefur umræðan, frá því að ég kom hingað inn fyrir fimm árum, fyrst á þing 2013, markast af því að allt sem þarf að gera í þessu samfélagi og bæta og eyða meiri peningum í skuli sótt í auðlindagjöld eða með veiðigjaldi á auðlindina.

Ég hef ekki samúð með útgerðinni að borga eðlilegt auðlindagjald frekar en okkur hinum sem borgum skatta af tekjum okkar, að það sé hið rétta. En það þarf auðvitað alltaf að velta fyrir sér hvert gjaldið eigi að vera.

Ég vil vekja athygli á því sem sagt var áðan að frá því að ég var síðast í fiskvinnslu fyrir 15 árum voru nánast allar vélar og tæki sem fiskvinnslan á Íslandi notaði erlend að uppruna, nánast allt. Það voru einhverjir hausarar og það var verið að byrja að framleiða fyrstu flæðilínurnar í frystihúsin, en að öðru leyti voru þetta allt erlendar vélar og við kölluðum starfsmenn í fiskvinnslunni Baader-menn, eftir þýskum gæðavélum sem voru í hverju einasta húsi, margar vélar.

Í dag er komin til nýsköpun í íslensku samfélagi sem er á heimsmælikvarða. Hún hefur rutt sér til rúms inn í aðrar greinar um allan heim og hefur orðið til í skjóli öflugra fyrirtækja sem hafa staðið með sprotafyrirtækjum og gert þau mjög stór og mikil svo þau geti framleitt það besta sem til er til að vinna úr sjávarafurðum. Við þekkjum þessi fyrirtæki, Marel og fleiri. Þegar maður kemur í fiskvinnsluhús í dag sér maður varla erlendar vélar; íslenskt hugvit, íslensk framleiðsla, sem við erum auðvitað öll mjög stolt af og ánægð með.

Með allri þeirri tæknivæðingu sem hefur átt sér stað í sjávarútveginum, um borð í bátunum og skipunum og vinnslunni, hefur störfunum fækkað, kannski hættulega mikið, en þeim hefur fækkað og afköstin hafa aukist, framleiðnin er gríðarleg. Sjávarútvegurinn er í raun eini atvinnuvegurinn á Íslandi sem er með þá framleiðni sem skiptir máli í samkeppni og í samanburði við önnur lönd.

Við skulum ekki gleyma því að á meðan við erum að tala um þessa öflugu grein þurfum við líka að tryggja að réttlátur hlutur af arðsemi auðlindarinnar verði alltaf hafður að leiðarljósi þegar við erum að leggja skatta á eða gjöld.

Í frumvarpinu miðast gjaldið að mestu við afla upp úr sjó. Það er aðeins öðruvísi en var. Í frumvarpinu er tekið á hlut vinnsluskipa úti á sjó, þeirra hlutur er leiðréttur miðað við fyrra kerfi. Í vinnsluskipunum eru tekjurnar niðurfærðar um 10% og er vinnsluafleggið tekið út úr dæminu. Ég er efins um að þetta jafni þeirra stöðu algjörlega gagnvart ísfisktogurum og geri ráð fyrir að í meðförum atvinnuveganefndar verði sá liður skoðaður betur. Nákvæmlega það sama er með uppskölun á tekjum uppsjávarveiðiskipa um 10%, líka til að jafna afkomuna og þeirra þátt. En þetta er eitthvað sem við þurfum kannski aðeins að skoða betur.

Í þeim afkomustuðlum sem voru áður og við erum að fella út, sem settir voru fyrir 2016 eða 2015, ég man ekki hvort var, var innbyggt að uppsjávarveiðiskipin voru hlutfallslega að borga hærra veiðigjald en botnfiskskipin.

Í frumvarpinu er líka gert ráð fyrir að 33% af gjaldstofninum séu tekin aftast í rekstrarreikningi fyrirtækjanna. En í raun er þetta meira landsbyggðarskattur — þar sem útgerðin er öflugust og sterkust, þar sogast mesta fjármagnið frá.

Það er líka vert að geta þess, sem margir aðrir þingmenn hafa komið inn á hér í dag, að í þessu frumvarpi eru frítekjumörk fyrir smærri og meðalstór fyrirtæki. Það er afar mikilvægt að standa vörð um smærri útgerðirnar og það er eitt af því sem við munum skoða í atvinnuveganefnd, hvort við séum að gera nóg í því. Það mun þá koma fram breytingartillaga við það ef um það er að ræða.

Það hefur líka komið fram að afkoma þessara skipa hefur á tveimur árum lækkað um 18%, eða verðmætasköpun hefur minnkað um 18%. Það er líka umhugsunarefni.

Ég hef sjálfur, virðulegi forseti, bent á að það eru auðvitað ýmsar aðrar leiðir til að rukka inn veiðigjald. Ég geri mér grein fyrir því að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að gjaldið skuli miðast við afkomu þjóðarinnar. Það er auðvitað líka hægt að hugsa sér að gjaldið sé bara hreinn og beinn aðgangur að auðlindinni án þess að sérstaklega sé tekið til greina hver afkoman sé. Tekjuskatturinn okkar er ekkert miðaður við það hvað einstaklingar skulda eða neitt; hann er bara lagður á tekjurnar og síðan borgum við skattinn alveg óháð því hvort við skuldum mikið eða lítið. Þannig hef ég oft hugsað að aðgangurinn að auðlindinni væri bara gjald sem væri greitt fyrir að fá að veiða viðkomandi tegund.

Við þekkjum þessar einföldu leiðir sem virðast ekki alltaf vera vinsælar í kerfinu. Aflagjöld hafna eru prósentur af verðmæti landaðs afla upp úr sjó á hverjum degi við hverja löndun. Það væri alveg hægt að hugsa sér að gera það við veiðigjaldið líka, fara þessa einföldu leið. Á hverjum degi er verðmyndun á fiskmörkuðum, hún gæti ráðið því hve hátt gjaldið verður á hverjum degi. Ef það væri föst prósenta hækkar krónutalan eða lækkar eftir því hvernig kaupin á eyrinni ganga. Þetta mætti líka skala aðeins niður og hafa lengra verðtímabil þar sem meðalverð síðustu þriggja mánaða myndi ráða því á hverjum degi hvert gjaldið gæti verið. Þannig fengist hið eina sanna réttláta gjald ef einhvern tímann er hægt að finna það. Það er svo sem ekki til umræðu hér. En mér finnst rétt af mér að nota tækifærið og koma því að að það eru auðvitað fleiri leiðir til að ná inn gjaldinu á einfaldan og góðan hátt.

Ég held að sú umræða sem verið hefur hér í dag sýni fram á það að þingmenn átta sig á því að hér er á ferðinni frumvarp sem bætir töluvert stöðuna, er að mörgu leyti réttlátara. Ég veit að þeir sem þurfa að greiða finnst gjaldið of hátt en mörgum öðrum finnst það kannski of lágt. Það er þessi gullni meðalvegur sem við ætlum að finna í þessu frumvarpi.

Við munum nú taka málið til meðferðar í atvinnuveganefnd og skoða það rækilega. Það eru ýmsir liðir sem mér finnst að við getum skoðað betur til einföldunar á þessu kerfi. Það verður að segjast eins og er að þegar maður skoðar þá verðtöflu sem hér er vitnað í, sem er gjaldið á hverja tegund, hefði mér fundist — til að einfalda þetta kerfi og vegna þess að í sumum þessara tegunda er náttúrlega ómögulegt að reikna út kostnaðinn við að ná í þær, það er oft meðafli eða aukaafli í hverjum túr — eðlilegt að hreinlega stilla slíkar tegundir á eitthvert lágmarksgjald, bara eitt gjald. Það má vera ein króna eða tvær krónur eða hvað sem við getum fundið út, en að setja t.d. hlýra á 12 kr. og steinbít á 8 kr. Ég átta mig ekki á því hver munurinn er þarna. Þessar tegundir eru oft að seljast á svipuðu verði á markaði. Humar er settur á 18 kr. eða tæpar 19 kr., hann er ekki einu sinni kvótasettur núna því að ekki er víst að hann verði veiddur á næsta ári. Humarstofninn er því miður bara týndur, hann er að týnast. Það er búið að skarka svo á honum að það virðist vera lítið eftir af honum. Ekki er hægt að ætla útgerðum að borga hátt veiðigjald af tegund sem hefur hrunið. Það er nánast sorglegt að sjá hvernig humarinn hefur hrunið á undanförnum árum. Við þurfum að skoða það mjög vel.

Þannig má líka velta fyrir sér hvernig á því stendur að þykkvalúra á að greiða 24 kr. veiðigjald. Ég átta mig ekki alveg á slíku heldur. Ég held að það væri alveg hægt að taka til í svona töflu, einfalda hana, taka veiðigjald af helstu tegundum sem við erum að tala um og skipta einhverju máli í þessu öllu saman. Okkur sem erum alin upp í sjávarbyggðunum og höfum unnið þar á hörðu gólfunum í fiskvinnslustöðvunum eða á veltandi dekki úti á sjó finnst einfaldleikinn oft bestur, að hlutirnir séu hafðir þannig að fólkið í landinu skilji þá og þegar það hlustar á fréttir um veiðigjöldin skilji það hvernig þau virka. Þetta á ekki að vera svo flókið að þau skilji enginn nema — eins og lögin sem nú eru í gildi, það eru tveir menn og guð sem skilja þau.

Við þurfum að gera þessar breytingar. Hér er ágætt veiðigjaldafrumvarp sem við ætlum að taka fyrir og ræða betur í atvinnuveganefnd, væntanlega á næstu vikum. Vonandi getum við eitthvað stungið í það og gert gott frumvarp betra.