149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:53]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Ráðherrann spurði hvað ég sæi í frumvarpinu sem gæti komið til móts við minni útgerðir.

Í frumvarpinu er talað um frítekjumark, 20% af fyrstu 4,5 milljónunum, minnir mig, og 15% af næstu 4,5 milljónum. Ég gæti séð þá prósentuhækkun eða slíkar aðgerðir, að hækka það. Síðan er annað sem snýr að skuldsettum útgerðum sem var fellt úr gildi í fyrra, minnir mig, fyrir kvótaárið í fyrra. Það er sem sagt vaxtaafsláttur eða skuldaafsláttur af lánum sem tekin hafa verið til kvótakaupa. Eitthvað í þeim dúr. Svona fljótt á litið dettur mér þetta tvennt í hug, þegar ég fæ þessa spurningu, þannig að þeir sem eru með litlar og meðalstórar útgerðir komist alla vega sæmilega frá þessu.

Það er svo margt sem steðjar að í rekstri í dag og oft á tíðum er þetta dropinn sem fyllir mælinn. Mér finnst að stjórnvöld þurfi að koma til móts við þá staðreynd.